Verður seint kallaður meistarakokkur

Matgæðingurinn Axel Kára ásamt Magnúsi Magnússyni þegar Tindastóll landaði Bikarmeistaratitlinum árið 2018.
Matgæðingurinn Axel Kára ásamt Magnúsi Magnússyni þegar Tindastóll landaði Bikarmeistaratitlinum árið 2018.

Það er körfuboltastjarna Skagafjarðar, Axel Kárason, sem var matgæðingur vikunnar í tbl 10 á þessu ári. En hann er ekki bara lunkinn með boltann hann er einnig dýralæknir á Dýraspítalanum Glæsibæ og situr í sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir hönd framsóknarmanna. Hann býr í Vík í Staðarhreppi ásamt kærustunni, Leana Haag, og eru þau undir verndarvæng lénsherrans og landeigandans Ómars á Gili.


„Það verður seint sagt að ég kallist einhver meistarakokkur, en á námsárunum í útlöndum var ég orðinn býsna lunkinn við að elda hakk, reyndar var alltaf meira hugsað um magnið heldur en gæðin í þá daga. Til að verða mér ekki algjörlega til skammar leitaði ég mér aðstoðar og hér koma uppskriftir sunnan úr Ölpunum sem eru vinsælar á heimilinu,“ segir Axel.


AÐALRÉTTUR
Roastbeef

    1,2 kg roastbeefsteik eða í þá áttina, t.d. lund.
    2 msk. olía.
    4 kvistir af rósmarín eða 2 msk. af þurrkaðri rósmarín.
    60 g smjör.
    salt & pipar

Aðferð: Takið roastbeefið úr kæli einni klukkustund áður. Hitið ofninn, með eldföstu móti, í 80°C (með undir og yfir). Hitið pönnuna með olíunni á hæstu stillingu. Þegar olían er heit, þ.e.a.s. fljótandi eins og vatn, er steikin sett á pönnuna. Steikið allar hliðar í u.þ.b. þrjár mínútur þar til kjötið er orðið gullbrúnt. Varast skal að gata kjötið þegar því er snúið til að koma í veg fyrir að kjötsafi sleppi. Takið eldfasta mótið úr ofninum og setjið kjötið í það. Kryddið með salti og pipar. Kjöthitamæli er stungið í þar sem kjötið er þykkast þannig að odd-urinn sé nokkurn veginn í miðri steik. Setjið smjörið og rósmarín-kvistana á kjötið og fatið svo sett í miðjan ofninn sem er ávallt hafður á 80°C. Eftir um það bil tvær og hálfa klukkustund ætti roastbeefið að hafa náð 55°C kjarnhita. Takið kjötið úr ofn-inum, skerið og berið fram strax. Létt tartarsósa og bakaðar kartöflur passa vel með steikinni, eða brauð.

MEÐLÆTI
Tartarsósa
    200 g majónes
    1 harðsoðið egg
    1 súr gúrka
    1/4 laukur
    1 msk. steinselja
    salt & pipar eftir þörfum

Aðferð: Skerið eggið og gúrkuna í teninga, saxið laukinn smátt, saxið steinseljuna. Blandið öllu út í majónesið og kryddið eftir smekk.

Verði ykkur að góðu

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir