Allt í lamasessi í rafmagnsleysinu
Rannsóknarblaðamenn Feykis voru sendir út af örkinni í morgun til að taka púlsinn á rafmagnsleysinu og fylgjast með því hvað fólk aðhafðist í myrkrinu - ef myrkur skildi kalla, því úti skein sólin. Þegar rafmagnið fer af þá fer nú ansi margt úr skorðum í okkar ágæta samfélagi og því kannski upplagt, á meðan tölvuskjáir og öll önnur tæki í Nýprenti sváfu, að skjótast út og mynda ástandið.
Í Skagfirðingabúð var ljóstíra við einn kassann en í Skaffó var hægt að afgreiða því vélarnar geta gengið fyrir rafhlöðum, að sögn Árna Kristins verslunarstjóra. Þrátt fyrir rafmagnsleysið var fólk að koma í búðina og einn aðili verslaði vasaljós meðan Feykismenn stöldruðu við.
Í Arion-banka var allt í lamasessi eins og víðast hvar annars staðar. Það pirraði þó starfsmenn að eitthvað í bankanum gaf frá sér endalaust píp. Viðskiptavinur ákvað að tékka á hvort hraðbankinn virkaði ekki. Svo var ekki.
Úr bankanum röltum við yfir í Ráðhús Skagfirðinga og þar reiknuðum við með að finna kjaftfulla kaffistofu sökum rafmagnsleysisins, en þá ríkti krísuástand í húsinu og fámennt í kaffistofunni. Kaffið var nefnilega löngu búið á könnunni og þrátt fyrir að ónefndur starfsmaður hafi reynt að gera bragarbót, með því að hella uppá í rafmagnsleysinu, þá kom allt fyrir ekki - engu tauti varð við kaffivélina komið. Þetta þótti eðlilega sniðugt og sennilega hafa margir Skagfirðingar staðið sig að því að reyna eitthvað álíka á meðan ekkert var rafmagnið.
Loks kíktu blaðamenn í bakaríið þar sem Róbert og samstarfsfólk biðu eftir að rafmagnið kæmi á, enda starfsemin rafmagni háð þrátt fyrir að starfsmenn séu alltaf í stuði. Ekki leið á löngu þangað til rafmagnið poppaði inn og Róbert rak upp fagnaðarhróp. Nú gat daglega lífið tekið upp þráðinn þaðan sem frá var horfið.