Verkfærakassinn, fyrsti þáttur Hrafnhildar Ýrar í dag

Hrafnhildur Ýr mun stýra sínum fyrsta hlaðvarpsþætti í dag en honum er streymt á vegum verkefnisins Þú skiptir máli sem er forvarnaverkefni gegn einelti, fíkn og sjálfsskaða eða sjálfsvígum.
Hrafnhildur Ýr mun stýra sínum fyrsta hlaðvarpsþætti í dag en honum er streymt á vegum verkefnisins Þú skiptir máli sem er forvarnaverkefni gegn einelti, fíkn og sjálfsskaða eða sjálfsvígum.

Í dag klukkan 18 mun Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir setja í loftið fyrsta þáttinn af Verkfærakassanum þar sem hún mun skoða ýmsar áhugaverðar leiðir til sjálfshjálpar, leiðir sem oft hafa talist óhefðbundnar eða fyrir utan normið. Leiðir sem af mörgum teljast framandi og jafnvel í sumum tilfellum forboðnar eða furðulegar. Þátturinn er á vegum verkefnisins Þú skiptir máli sem er forvarnaverkefni gegn einelti, fíkn og sjálfsskaða eða sjálfsvígum.

„Það má kannski segja að ég setji mig í hlutverk spæjarans og fari rannsóknarferð þar ég hitti áhugavert fólk sem er að gera áhugaverða hluti til hjálpar sjálfu sér og öðrum. Markmiðið er að fjölga þeim verkfærum sem við höfum til að hjálpa okkur að líða betur og verða besta útgáfan af sjálfum okkur,“ segir Hrafnhildur.

Þátturinn er á vegum verkefnisins Þú skiptir máli sem er forvarnaverkefni gegn einelti, fíkn og sjálfsskaða eða sjálfsvígum og hefur verið starfandi frá árinu 2016. Á vegum verkefnisins er m.a. rekin Tónasmiðja skapandi starf fyrir ungt fólk á Húsavík og unnið öflugt fræðslu- og forvarnarstarf, bæði í nærsamfélaginu sem og í gegnum heimasíðuna thuskiptirmali.is og Facebook síðu starfsins.

„Þar er að finna mikið af frábæru efni bæði á formi texta og hljóðvarpsþátta sem ég hvet fólk til að kíkja á. Forsvarsmaður verkefnisins er Elvar Bragason en hann hefur unnið við forvarnarstarf í um 15 ár,“ segir Hrafnhildur en þáttinn er hægt að nálgast á öllum helstu steymisveitum s.s. Spotify, Apple, SoundCloud, Google o.s.frv., ásamt því að hægt er að nálgast þáttinn á heimasíðu verkefnisins thuskiptirmali.is.

Hvaðan kom hugmyndin að þættinum?
„Í sumar kom ég fram í þættinum Fyrirmyndir í tali og tónum á vegum Tónasmiðjunnar en þar lágu leiðir okkar Elvars saman. Fljótlega eftir að sá þáttur fór í loftið hefur Elvar samband við mig aftur og býður mér að vera með vikulegan þátt. Mér fannst hugmyndin strax mjög spennandi enda hefur mig lengi langað að spreyta mig í útvarpi. Ég fékk mjög frjálsar hendur með efnistök og ólíkt mörgum öðrum var Elvar strax mjög opinn fyrir því að ég myndi fjalla um óhefðbundnar aðferðir til sjálfshjálpar. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á hinu óhefðbundna og hef nýtt mér slíkar meðferðir sjálf með góðum árangri. Mér finnst hin opinbera umræða um þessi mál oft á villigötum og einkennast af vanþekkingu og fordómum. Það er auðvelt að dæma eitthvað sem maður skilur ekki eða fellur ekki inn í normið. Mín reynsla er hins vegar sú að almenningur sé yfirleitt mjög opinn og forvitinn um þessi mál og því langaði mig að búa til fræðandi og skemmtilega þætti sem svarað gætu áhugaverðum spurningum – og kannski kveikt enn fleiri! Það er hollt að spyrja, maður á að gera það.“

Af hverju Verkfærakassinn?
„Hugmyndin að nafninu er sú að því fleiri aðferðir eða verkfæri sem við höfum í verkfærakassanum til sjálfshjálpar, því líklegra er að við finnum eitthvað við okkar hæfi og náum árangri í að bæta líf okkar. Hin hefðbundnu verkfæri sem allir þekkja og heilbrigðiskerfið okkar vinnur með, eru einhvers konar sálfræðimeðferðir, geðlæknar, lyf, ýmis konar endurhæfing og svo framvegis. Eins frábær og þessi verkfæri eru henta þau ekki öllum ein og sér. Margir finna meiri árangur ef þeir nýta sér óhefðbundnar aðferðir samhliða og fyrir suma hafa þær reynst nægar einar og sér. Með þessu er ég ekki að segja að fólk eigi að hætta að leita sér hefðbundinnar hjálpar, alls ekki. Við þurfum bara að vera opin fyrir því að hún hentar ekki alltaf öllum og því þurfum við að hafa fleiri verkfæri í handraðanum.“

Hefurðu gert svona áður?
„Eina reynsla mín af gerð útvarpsþátta var þegar ég var 10 ára og tók upp þætti á kasettu á stofugólfinu heima. Mig dreymdi alltaf um að gera minn eigin útvarpsþátt og er afskaplega þakklát fyrir að fá núna tækifæri til þess.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri við lesendur Feykis?
„Mig langar til að hvetja fólk til að hlusta á þáttinn með opnum huga. Það er mikilvægt að við finnum öll okkar sannleika í lífinu og sama leið hentar aldrei öllum. Það mun ýmsum finnast umfjöllunarefnið skrítið á köflum og það er bara í góðu lagi. Ef þú finnur ekki „já“ í hjartanu þá er þetta ekki þinn sannleikur. Það þýðir samt ekki að það geti ekki verið sannleikur einhvers annars. Við erum öll ólík og þurfum að læra að virða það hjá hvoru öðru án þess að dæma þá leið sem hver og einn velur. Ég hlakka til að fara í þessa rannsóknarferð og skoða heim óhefðbundinna aðferða. Ég vona að sem flestir skelli sér í ævintýraferðina með mér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir