Ábyrgðir 30 þúsund námslána felldar niður

Vextir og greiðslubyrði allra núverandi námslána mun lækka, ráðstöfunartekjur greiðenda munu hækka og ábyrgðir á 30 þúsund námslánum verða felldar niður fái lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um Menntasjóð námsamanna framgang á Alþingi.

Á heimasíðu menntamálaráðuneytisins kemur fram að í nóvember hafi ráðherra mælt fyrir frumvarpinu, sem felur í sér grundvallarbreytingu til hins betra á námslánakerfinu og nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera samhliða breytingar á eldri námslánum, sem allar miða að því að bæta kjör lánþega. Fram kemur í fréttinni að búið sé að leggja fyrir þingið breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi.

Vextir námslána verða lækkaðir úr 1% í 0,4% auk þess sem allt að 15% afsláttur verður veittur af höfuðstól við uppgreiðslu námslána og innágreiðsla. Þá verða ábyrgðir felldar niður á öllum lánum sem eru í skilum, en þau eru um 30 þúsund talsins

„Með þessu er tryggt að lánþegar njóti góðs af sterkri stöðu LÍN, sem hefur á undanförnum árum aukið verulega eigið fé sitt vegna góðra endurheimta og minnkandi spurnar eftir námslánum. Það er sérstaklega ánægjulegt að geta líka létt áhyggjum af tugum þúsunda einstaklinga sem hafa verið í ábyrgð fyrir endurgreiðslu lána, því slík ábyrgð felur í sér mikla skuldbindingu eins og mörg dæmi sanna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir