Japanskur kjúklingaréttur og skyrterta

Matgæðingafjölskyldan, Ingibjörg Signý og Hjálmar Björn ásamt börnum sínum. Aðsend mynd.
Matgæðingafjölskyldan, Ingibjörg Signý og Hjálmar Björn ásamt börnum sínum. Aðsend mynd.

„Hér kemur uppáhalds maturinn á Hlíðarbraut 3 á Blönduósi. Við erum svolítið fyrir það að hafa hlutina einfalda og fljótlega í eldhúsinu en það kemur annað slagið fyrir að við græjum eitthvað gúrme og flókið,“ sögðu matgæðingarnir Hjálmar Björn Guðmundsson og Ingibjörg Signý Aadnegard sem voru matgæðingar 23. tölublaðs Feykis árið 2018 .

AÐALRÉTTUR
Japanskur kjúklingaréttur

4 kjúklingabringur

Sósa:
½ bolli olía
¼ bolli balsamic edik
2 msk. sykur
2 msk. sojasósa

Allt soðið saman í u.þ.b. eina mínútu, kælt og hrært í annað slagið meðan það kólnar (ef ekki er hrært þá skilur sósan sig).

Eftirtalið er þurrristað á pönnu og kælt á eftir:

1 poki núðlur -  ekki nota kryddið. Núðlurnar eru brotnar í smáa bita og þær ristaðar fyrst.
3-4 msk. möndluflögur (magn eftir smekk)
1-2 msk. sesamfræ (magn eftir smekk)

Grænmeti:
1 poki salatblanda
litlir tómatar (sherry tómatar)
1 mangó
1 lítill rauðlaukur

Aðferð:
Grænmetinu er öllu blandað saman. Kjúklingabringurnar skornar í ræmur og snöggsteiktar í olíu á pönnu. Thai sweet chili sósu er hellt yfir og látið malla í smá stund. Svo er allt sett í skál í þessari röð:
Grænmeti – núðlur – möndlur – sesamfræ – kjúklingaræmur.
Borið fram með hvítlauksbrauði. Gott er að geyma eitthvað af sósunni og bera fram með réttinum. Sósan er líka góð með brauðinu.

EFTIRRÉTTUR 
Skyrkaka

Botn:
1 pk. Lu bastogne kex
150 g smjör
Kexið og smjörið er maukað vel saman í matvinnsluvél. Þrýstið kexblöndunni á botninn og upp með börmunum á bökunarforminu. Geymið botninn í kælið á meðan þið útbúið fyllinguna. 

Fylling:
500 g vanilluskyr
3 dl rjómi
1 msk. flórsykur
1 tsk.vanilluduft eða paste
100 g hvítt súkkulaði, brætt
ber og súkkulaði eftir smekk, notað til að toppa. 

Aðferð:
Léttþeytið rjóma og leggið til hliðar. Hrærið skyrinu, flórsykrinum og vanillu saman í smá sund. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og kælið áður en því er blandað varlega saman við skyrblönduna með sleif. Rjómanum bætt saman við í lokin, með sleif að sjálfsögðu. Setjið skyrblönduna ofan á kexbotninn og kælið í minnsta kosti þrjár klukkustundir eða lengur, helst yfir nótt. Það er hægt að frysta þessa köku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir