Lárperuforréttur, lambasteik og ömmurabarbaradesert

Árni við endann og Ásdís t.h. ásamt hluta stórfjölskyldunnar. Aðsend mynd.
Árni við endann og Ásdís t.h. ásamt hluta stórfjölskyldunnar. Aðsend mynd.

Matgæðingar vikunnar í 27. tölublaði Feykis árið 2018 voru þau Ásdís S. Hermannsdóttir og Árni Ragnarsson á Sauðárkróki. Ásdís er kennari á eftirlaunum og hafði þá síðustu tvö árin unnið í afleysingum við kennslu og í gamla læknaritarastarfinu sínu og sagðist alltaf mjög glöð þegar „kallið kæmi“ að hitta gamalt samstarfsfólk og rifja upp gamla takta. Annars er uppáhaldsiðjan að vera amma og njóta barnabarnanna. Árni er arkitekt  og starfaði sem sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar.

Eldamennskan er mest á hennar könnu en „Árni minn hefur sérhæft sig í nokkrum uppskriftum,“ sagði Ásdís, „sem ekki komast á blað núna en af þeim gerir hann bestu „omelettu“ í heimi og hún klikkar aldrei. Svo er hann besti uppvaskari  sem hugsast getur – og enginn kann að raða í uppþvottavélina nema hann!“ - Ásdís kemur aldrei nálægt frágangi í eldhúsinu og finnst þetta góð verkaskipting.

For- og aðalréttur eru uppskriftir sem Ásdís hefur þróað gengnum tíðina. Sérstaklega er aðalrétturinn í uppáhaldi hjá öllum, þægileg eldamennska fyrir huggulegt laugardagskvöld, með eða án gesta!
Grunnuppskriftin að rabarbarabökunni er úr gömlu, góðu uppskriftabókinni Matarlyst frá Mjólkurdagsnefnd en Ásdís hefur breytt og bætt. Mjög vinsæll eftirréttur og ekki kallað annað en ömmurabarbaradesert á heimilinu.

FORRÉTTUR
Lárperu-rækju réttur

avokadó
rækjur
sýrður rjómi eða grísk jógúrt
lime og krydd
eitthvað grænt og gott

Aðferð:
Byrjið á að rífa niður eitthvað gott grænmeti í litlar skálar. Yfir það avokadó (vel þroskað) skorið niður í hæfilega stóra bita, lime kreist yfir og stráð yfir grófu sjávarsalti. Rækjur þar ofan á, einnig kreista lime yfir þær og síðast toppað  með sýrðum rjóma eða grískri jógúrt. Skreytt með dillkvistum eða þurrkuðu dilli. Með þessu má bera fram snittubrauð eða ristað brauð ef vill. 

AÐALRÉTTUR
Lambaframpartur með grænmeti  í pottofni

Mér finnst betra að nota frampart heldur en læri þar sem hann er fitusprengdari og safameiri.

lambaframpartur
smjör
krydd frá Pottagöldrum; Lamb Islandia/Herbes de Provence/Eftirlæti hafmeyjunnar, malaður 5-pipar, gróft sjávarsalt
kartöflur, sætar og gullauga eða rauðar eftir smekk
rófur, laukar, hvítir/rauðir, gulrætur
íslenskt blómkál og spergilkál þegar það er í boði, annars uppáhaldsgrænmeti hvers og eins
olívuolía
malaður 5-pipar, gróft sjávarsalt, timian.

Aðferð:
Framparturinn snyrtur og kryddaður, gott að setja nokkrar smjörklípur yfir til að fá smá skorpu og mýkja hann. Settur í pottofninn (þennan gamla, góða svarta) og sett í ofninn, án loks, við 220°C í svona 10 mínútur til að fá skorpuna. Hitinn lækkaður í 180°C eða lægra ef vill, mörgum finnst betra að hægelda lambakjötið, og lokið sett yfir.
Grænmetið skorið í bita, stærð eftir smekk, öllu blandað í stóra skál, olívuolíu hellt yfir, kryddi bætt við og hrært vel saman. Þessu hellt í pottinn eftir ½-1 tíma og steikt áfram. Steikartími fer síðan eftir stærð bitanna, ½ - 1 tími, allt miðað við þyngd kjötsins og heildarsteikartími miðast við það.
Kjötið tekið úr ofninum og látið „ryðja sig“ í u.þ.b. 10 mínútur en grænmetið áfram í ofninum. Það þarf að vera vel heitt þegar það er borið á borð svo það kólni ekki of hratt.
Með þessu þarf ekki aðra sósu en soðið sem myndast í pottinum sem er bæði hollasta og bragðbesta sósa sem um getur!

EFTIRRÉTTUR
Rabarbarabaka

400 g rabarbari
½ dl hveiti
2 egg
2½ dl sykur
1¾ dl hveiti eða haframjöl
1½ dl púðursykur
50 g smjör

Aðferð:
Rabarbarinn skolaður og skorinn í litla bita. Hveiti, sykur og egg hrært saman og hellt yfir rabarbarann. Sett í smurt eldfast mót. Hér finnst mér gott að bæta við að vild súkkulaði, rifnu marsipani, bönunum, eplum, döðlum eða öðrum uppáhalds sætindum. Þá er upplagt að minnka sykurmagnið hér og eins púðursykurinn sem er dreift yfir á eftir.
Mylja saman hveiti/haframjöli, púðursykri og smjöri, dreifa yfir rabarbarann og baka í u.þ.b. 45 mín.
Gott að bera fram með bökunni ís, rjóma eða gríska jógúrt/sýrðan rjóma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir