Opnir fundir Markaðsstofu Norðurlands

Vesturfarasetrið á Hofsósi. Mynd:FE
Vesturfarasetrið á Hofsósi. Mynd:FE

Markaðsstofa Norðurlands stendur fyrir opnum fundum á Norðurlandi vestra nk. miðvikudag, þann 3. júní. Á fundunum munu þau Arnheiður Jóhannsdóttir og Björn H. Reynisson fara yfir nokkur atriði fyrir komandi mánuði, að því er segir í frétt á vef Markaðsstofu, northiceland.is.

Farið verður yfir þær markaðsaðgerðir sem til stendur að ráðast í á næstu mánuðum, bæði fyrir innlendan og erlendan markað og auk þess kynntar niðurstöður markaðsrannsóknar sem gerð var á síðasta ári á vegum Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála og Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum fyrir Markaðsstofu Norðurlands. Þar var gerð eigindleg rannsókn hjá ferðamönnum á Norðurlandi, netrannsókn hjá ferðaþjónustuaðilum og rannsókn á notkun samfélagsmiðla. Sóknaráætlun Norðurlands vestra studdi rannsóknirnar. 

Fundirnir á Norðurlandi vestra verða haldnir á eftirfarandi stöðum: 

Í Skagafirði – KK Restaurant, Sauðárkróki klukkan 9:00.
Í Austur-Húnavatnssýslu – Eyvindarstofa, Blönduósi klukkan 12:30
Í Húnaþingi vestra – Hótel Laugarbakki klukkan 16:00 

Upplýsingar um skráningu má nálgast á vef Markaðsstofu Norðurlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir