Aukaúthlutun til ferðamannastaða

Lagfæringar minja og bætt upplýsingagjöf um fornminjar við Þrístapa var eitt þeirra verkefna sem fékk úthlutað styrk úr verkefnaáætlun Landsáætlunar 2020-2022. Mynd:FE
Lagfæringar minja og bætt upplýsingagjöf um fornminjar við Þrístapa var eitt þeirra verkefna sem fékk úthlutað styrk úr verkefnaáætlun Landsáætlunar 2020-2022. Mynd:FE

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað 200 milljóna króna viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða á árinu 2020 með hliðsjón af vinnu stjórnar sjóðsins frá úthlutun ársins 2020 í mars síðastliðinn.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að með fjárveitingunni, sem er hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins, verði unnt að hraða uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum um allt land sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins.

Alls hljóta 15 verkefni, til viðbótar við þau 33 verkefni sem tilkynnt var að fengju styrk úr sjóðnum í mars síðastliðnum, brautargengi. Um er að ræða verkefni víðsvegar um landið sem sóttu um í sjóðinn við síðustu úthlutun en náðu ekki fram að ganga. Stærstur hluti úthlutunarinnar, eða 43%, rennur til verkefna á Norðurlandi eystra og 28% til verkefna á Suðurlandi. 

Athygli vekur að ekkert fjármagn rennur til Norðurlands vestra en bæði Blönduósbær og Húnavatnshreppur hafa lýst yfir vonbrigðum með að umsóknum sveitarfélaganna um styrki úr sjóðnum hafi verið synjað. Jafnframt bentu sveitarfélögin á mikið ósamræmi milli milli landshuta en einungis runnu 34 milljónir af rúmlega 500 milljónum til Norðurlands vestra. Undir þetta tók stjórn Samtaka sveitarfélag á Norðurlandi vestra á fundi sínum þann 7. apríl síðastliðinn.

Tengdar fréttir: 

Stjórn SSNV tekur undir vonbrigði vegna styrkveitinga úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og Landsáætlun

Vonbrigði með synjun á styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Fjármunum úthlutað til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum

 

 

Fleiri fréttir