Bjössi Óla og Sossu lætur tímann líða

Bjössi horfir dreyminn fram á veginn. MYND AF NETINU
Bjössi horfir dreyminn fram á veginn. MYND AF NETINU

Þriðji lífskúnstnerinn okkar og tímaeyðir er Arnbjörn Ólafsson en hann höndlar markaðs- og þróunarmál hjá Keili – miðstöðvar vísinda, fræða og mennta sem staðsett er í Reykjanesbæ. Bjössi er kannski sá aðili sem hefur síðustu misserin stuðlað hvað mest að aukinni flugumferð í lofthelgi Sauðárkróks í gegnum starfsemi Flugskóla Keilis.

Það eru nú um 25 ár síðan Bjössi bjó á Króknum ásamt Björk systur sinni og foreldrum, Óla Arnbjörns aðstoðarskólameistara við FNV og Sossu listakonu og teiknikennara við Árskóla. Hann hvetur fólk til að reyna „...eftir fremsta megni að styðja við verslun, lítil fyrirtæki, einyrkja, verktaka, listamenn, ferðaþjónustuaðila og fleiri sem munu á næstu vikum og mánuðum ganga í gegnum erfiða tíma.“

Eins og Feyki grunaði þá var ekki komið að tómum kofanum þegar kappinn var inntur eftir spennandi tímaeyðslum. Lítum á ráðleggingarnar:

Hvaða tónlist, plötu eða playlista á ég að hlusta á...

1. Playlistar: Eitthvað íslenskt á Spotify. Alveg sama hvað. Látið Spotify rúlla allan sólarhringinn á einhverjum góðum random lista íslenskra tónskálda og hljómsveita. Það skilar allavega nokkrum krónum í galtóma vasa tónlistarfólks þessa dagana.
2. Tónlist: Ég er alger sökker fyrir slæmri tónlist jaðarfólks í tónlistarheiminum. Það er orðið mun auðveldara að nálgast þessa tónlist á dögum Spotify og YouTube rása, en þegar ég átti pennavin í Ástralíu sem sendi mér disk með uppáhalds slæmulögunum sínum gegn því að ég sendi honum áritaðan disk frá Leoncie. Ég held að indverska prinsessan eigi núna stóran aðdáendahóp í Adelaide. Eða svona miðað við hversu stórir aðdeáendahóparnir hennar verða.
3. Tónlistarmenn: Ég er að hlusta þessa dagana talsvert á annarsvegar Finneas Baird O'Connell, bróður Billie Eilish, sem gerir alveg fantagóða tónlist. Hinsvegar á Colin Hay, sem var forsprakki áströlsku gleðisveitarinnar Men at Work. Stórmerkilegur náungi og frábær tónlistarmaður.

Hvaða kvikmyndir er nauðsynlegt að horfa á...

1. Talandi um Colin Hay. Það er ansi góð heimildarmynd um hann á Amazon Prime. Ég get alveg mælt með heimildarmyndum um hljómsveitir. Fyrir utan gamlar og klassískar eins og The Band - The Last Waltz er aragrúi góðra mynda til á streymisveitum um Woodstock, Eagles og Stones, sem og magnaða heimildarmynd Two Killings of Sam Cooke.
2. Talandi um heimildarmyndir um hljómsveitir. Ég fæ aldrei leið á því að horfa á meistaraverkið This is Spinal Tap frá 1984. Þetta er svona mynd þar sem maður sér alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti sem maður horfir á hana.
3. Ég held mig í þessum pakka og mæli með að fólk sjái eina af upphaflegu mockumentary myndunum All You Need is Cash sem segir frá sögu hljómsveitarinnar The Rutles. Þetta er úr smiðju Eric Idle og snillingsins Neil Innes sem lést í desember síðastliðnum.

Hvaða poddköstum mælirðu með...

1. Í ljósi sögunnar - Vera Illugardóttir á RÚVÞetta segir sig sjálft. Nýtum nú inniveruna þessa dagana og fræðumst með Veru.
2. Cringeworthy. Okkur vantar eitthvað gott íslenskt orð yfir það. Kannski pínlegur kjánahrollur? En það orð lýsir allavega My dad wrote a porno. Þetta er hlaðvarp sem hefur skemmt mér vel undanfarin ár þar sem breskt þríeyki les upp kafla úr erótískum bókum föður eins þeirra. Fátt verra en að lesa upphátt úr erótísku ritverki föður þíns, nema ef hún væri pop-up bók í ofanálag.
3. Saga Pink Floyd á RÚV. Frábærir þættir sem Ólafur Teitur Guðnason gerði um eina mögnuðustu hljómsveit allra tíma. 

Bækur sem þú mælir með...

1. Tune In - Mark Lewisohn. Fyrsta bindið af þremur í ritröðinni All These Years. Þetta er frábær og yfirgripsmikil bók um fyrstu árin í sögu Bítlanna. Bókinni lýkur þegar þeir eru að gefa út sína fyrstu breiðskífu, þannig að það er fullt eftir í næstu bókum hans, sem ég bíð óþreyjufullur eftir. Nauðsynlegt að hlusta á þessa á Audible til dæmis, þar sem Clive Mantle fer á kostum sem fjórmenningarnir úr Liverpool, John, Paul, George og hérna ... æ þessi sem lítur út eins og Yasser Arafat.
2. Stephen Pinker - Enlightenment Now. Staðreyndir skipta máli og kannski aldrei meira en á þessum tímum þar sem ráðamenn og áhrifavaldar virðist geta teygt staðreyndir, afneitað vísindum og afbakað sannleikan eins og þeim listir. Strax er ekki teygjanlegt hugtak, frekar en það að þyngdaraflið sé valkvætt eða jörðin flöt. Nú er kominn tími til að hverfa frá uppgerðar rómantískri hetjudáð nútíma valdboðssinna, popúlista og nýfasistua og upphefja á ný mikilvægi vísinda og mannhyggju, stutt af raunverulegum gögnum og vísindalegum niðurstöðum. Búmm. 
3. Adam Higginbotham - Midnight in Chernobyl. Þó maður viti hvernig sagan endar er þetta ein mest spennandi bók sem ég hef lesið undanfarin ár. Þarna er farið yfir aðdraganda og áhrif tilraunar sem mistókst í kjarnorkuverinu í Chernobyl í apríl 1986 með þeim afleiðingum að einn kjarnakljúfurinn bræddi úr sér. Um er ræða stærsta kjarnorkuslys sögunnar. Fín áminning að við höfum áður staðið frammi fyrir ógnum sem við höfum náð að komast yfir. Verst hvað við virðumst læra lítið af sögunni.

Hvað þáttaraðir eru fínar í hámhorfið...

1. Counterpart á Amazon Prime. Kynngimagnaðir þættir með trommufasistanum J.K. Simmons sem gerast í Berlín og segja frá því þegar hlið opnast yfir í veröld hliðstæðri okkar eigin en þó ekki. Eins og Stöð 2 lýsir þessu: „Fljótlega fara hlutirnir þó úr böndunum og lífi hans og eiginkonu hans er stefnt í hættu.“ Hef ekki verið svona límdur við seríu síðan Dynasty á níunda ártatugnum.
2. Glow á Netflix. Talandi um níunda áratuginn. Glow þættirnir sameina allt það besta frá þessum tíma. 80's tónlist, fjölbragðaglímu og konur í glitrandi spandex búningum. Alveg hreint glettilega gleðilegir gamanþættir.
3. Ugly Delicious á Netflix. Nú þegar við getum ekki ferðast um heiminn lengur, er ekki úr vegi að panta sér heimsendingu á mat og horfa á David Chang gæða sér á guðaveigum í framandi löndum.

Þrjár mannbætandi Jútjúbb-slóðir...

1. Núna í Boltahallærinu mikla vorið 2020 er voðalega notalegt að horfa á klassíska leiki úr enska boltanum. Síðan má alltaf velja sér leiki þar sem úrslitin eru hagstæð, eitthvað sem við United menn höfum ekki séð mikið af á undanförnum árum.
2Vox er fantafín fréttaveita. Ekki veitir af að fá almennilega samantekt á þeim málum sem steðja að heimsbyggðinni þessa dagana.
3. Síðan má mæla með síðunum Last Christmas - All the Versions þar sem hægt er að finna flest allar ábreiður af þessum sígilda slagara Hvamsbræðra. Nú eða bara Last Christmas - 10 hours þar sem þú getur hlustað á lagið þeirra síendurtekið. Ég meina. Ef þú hafðir gaman af 4 mínútna útgáfunni, er nokkuð því til fyrirstöðu að þú hafir gaman af 600 mínútna útgáfunni?

Hvað væri fínt að hafa á kantinum...

1. Masterclass eru með samansafn af flottum og hagnýtum námskeiðum. Nýtum nú tímann vel og lærum eitthvað nýtt. Svo sem að blanda hinn fullkomna Negroni, úrbeina fiðurfé fyrir Turducken, eða byrja á þessari bók sem þú ætlaðir alltaf að skrifa.
2. Stingray Karaoke bjóða upp á fríkeypis útgáfu af appinu sínu í samkomubanninu. Óendanleg skemmtun fyrir þig og kvöl og pína fyrir alla aðra á heimilinu. Allir vinna.
3. Scribd, Storytell, Kindle og Audible. Það er orðið svo auðvelt að fá óendanlegt magn af lesefni heim til þín. Nú eru ekki bara bókahillurnar fullar af ókláruðum bókum, heldur síminn minn líka. Án gríns. Þetta er alveg frábært.

Einhver skilaboð að lokum? Þetta eru erfiðir og undarlegir tímar sem við lifum á. Eitt vil ég þó halda áfram að gera þrátt fyrir samkomubann ... og það er að styðja við verslun og þjónustu. Ég hvet ykkur til að gera slíkt hið sama og reynið eftir fremsta megni að styðja við verslun, lítil fyrirtæki, einyrkja, verktaka, listamenn, ferðaþjónustuaðila og fleiri sem munu á næstu vikum og mánuðum ganga í gegnum erfiða tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir