Byggðasafn og Bardagi (Sýndarveruleiki) - bæði í boði

Í ljósi  umræðu um málefni Byggðasafns Skagfirðinga og húsin við Aðalgötu 21 undanfarið fannst mér tímabært að sem formanni atvinnu-, menningar og kynningarnefndar að skýra málefni safnsins út eins og þau snúa að mér.

Gunnsteinn Björnsson formaður atvinnu-, menningar og kynningarnefndar

 Löngu er ljóst að Minjahúsið á Sauðárkróki hefur ekki fullnægt þörfum Byggðasafns Skagfirðinga en það hefur að stærstum hluta verið nýtt til að geyma safngripi en byggðasafnið á mikið af gripum sem ekki eru í sýningu svo og starfsaðstöðu Byggðasafnsins en jafnframt eru gömlu verkstæðin hýst í húsinu. Húsið er ekki heppilegt til sýningahalds enda bakhús, á það vantar lyftu og er einfaldlega ekki nógu stórt fyrir framtíðarstarfsemi safnsins.

Framtíðaraðstaða fyrir starfsemi byggðasafns þ.e. starfsaðstöðu og geymslur verður ekki leyst  nema með nýbyggingu og þar sem héraðsskjalasafnið er einnig með ófullnægjandi geymsluaðstöðu var ákveðið að sú aðstaða yrði í safnahúsinu við Faxatorg. Loforð liggur fyrir frá ríkinu um byggingu menningarhúss og í  samningi við ríkið er tekið fram að það skuli byggt við safnahúsið. Ríkið óskaði  árið 2009 eftir að áformum um byggingu menningarhúss yrði frestað en málið var aftur tekið upp við þáverandi menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson sem skipaði í þarfagreiningarhóp sem hefur verið að störfum síðan með tveimur hléum vegna kosninga og stjórnarmyndunar en nú er stutt í að störfum hópsins ljúki. Í þeirri vinnu sem hefur farið fram í hópnum er gert ráð fyrir að í byggingunni verði 700 fermetra geymsluhúsnæði fyrir söfnin í Skagafirði.

Ásýnd ysta hluta bæjarins hefur ekki verið Skagafirði til sóma á undanförnum árum og var tekin ákvörðun um að finna húsunum hlutverk og var niðurstaðan að þetta svæði hentaði vel til sýningahalds af ýmsu tagi. Var því ákveðið að fara í makaskipti við Kaupfélag Skagfirðinga á Minjahúsinu og húsunum við Aðalgötu  21 sem á þeim tíma áttu að þjóna sem geymslur og starfsaðstaða fyrir Byggðasafnið meðan bygging nýs húsnæðis stæði yfir. En stundum koma tækifærin upp í hendurnar með litlum fyrirvara og það gerðist þegar forsvarsmenn Sýndarveruleika ehf.  komu með hugmynd að sýndarveruleikasýningu um Örlygsstaðabardaga til sveitarfélagsins. Um þetta verkefni þurfti að ríkja trúnaður á vinnslustigi, en fleiri en einn hafa verið að vinna að svipuðum eða sömu hugmyndum. Þá varð ljóst að ef við ætluðum að vera með í þessu verkefni þá þyrfti að grípa til aðgerða og festi sveitarfélagið kaup á húsnæði fyrir geymslur í nýbyggingu sem er að rísa við Borgarflöt  og verður afhent í apríl 2018. Jafnframt var fundinn staður fyrir skrifstofur Byggðasafnsins í húsnæðinu að Aðalgötu 2 þar sem unnt verður að vinna áfram að rannsóknum svo sem beinarannsóknum sem unnin hafa verið í Minjahúsinu. Gömlu verkstæðin verða síðan flutt í  sýningaraðstöðu við Aðalgötuna og er verið að vinna að endanlegri útfærslu á því þessa dagana. Því til viðbótar má segja að jákvæð hliðarverkun sem fylgi flutningum er að við pökkun gripa hafa þeir jafnframt verið skráðir svo nú er komin góð skráning á safnkostinn.

Að ofansögðu er ljóst að mikill metnaður er um að búa Byggðasafni Skagfirðinga góða aðstöðu til framtíðar og leysa þau mál sem koma upp á leið til varanlegrar lausnar. Það er mín trú að fræðilega starfið muni blómstra í sambýli Héraðsskjalasafnsins, Bókasafnsins og Byggðasafnsins í Menningarhúsi við Faxatorg.

Jafnframt ber að fagna að fyrirtæki eins og Sýndarveruleiki ehf. skuli koma til Skagafjarðar  og setja hér upp sýningu sem þessa, enda er ljóst að aðdráttarafl Skagafjarðar eykst við komu svona ferðamannaseguls og  jafnframt styrkist sú ímynd sem Skagafjörður hefur sem söguhérað. Ekki má heldur gleyma því að við þessa starfsemi verða til 5-10 störf í sveitarfélaginu.

Það er fátt sem er mér jafn fjarri eins og að vilja ekki veg Byggðasafns Skagfirðinga góðan, þar eru ómæld tækifæri sem og í mörgu öðru hér í firðinum okkar, jafnframt hef ég brennandi áhuga á því að atvinnumálin hér blómstri og við sjáum hér uppbyggjandi nýjungar í sem flestum greinum atvinnulífsins sem styrkja sveitarfélagið.

Gunnsteinn Björnsson formaður atvinnu-, menningar og kynningarnefndar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir