Grilluð hörpuskel og pastasalat

Steinunn Gunnsteinsdóttir matgæðingur. Mynd aðsend.
Steinunn Gunnsteinsdóttir matgæðingur. Mynd aðsend.

Matgæðingar vikunnar í tbl 28 í fyrra voru Steinunn Gunnsteinsdóttir og Jón Eymundsson en þau búa í Iðutúninu á Króknum. Þau eiga þrjú börn og Steinunn starfar hjá Upplýsingamiðstöðinni á Króknum sem staðsett er í 1238 húsinu og Jón hjá K-Tak.

„Okkur finnst gaman að grilla á sumrin og þá er gaman að breyta aðeins til og grilla sjávarrétti. Krakkarnir elska að borða af spjóti því það er svo mikið sport, svo kemur einnig uppskrift að pastasalati. Salatið er algjör snilld sem léttur kvöld/hádegisverður og svo er frábært að eiga afgang inni í ísskáp til að grípa í þegar allir eru heima í fríi og er einnig upplagt sem nesti,“ segir Steinunn.

UPPSKRIFT 1
Grilluð risahörpuskel og risarækjur með sítrónu/lime dressingu

    12 stk. stórar hörpuskeljar
    12 stk. risarækjur

Marenering:
    50 ml ólífuolía
    1 hvítlauksgeiri (fínt rifinn)
    2 msk. lime-safi
    3 msk. sojasósa
    2 msk. sesam olía
    sjávarsalt
    svartur pipar úr kvörn

Aðferð: Setjið allt hráefnið, nema hörpuskelina og rækjurnar, saman í matvinnsluvél og vinnið saman í eina mínútu. Setjið hörpuskelina og rækjurnar í marineringuna og látið standa í 1-2 tíma. Þerrið mestu olíuna af hörpuskelinni og rækjunum og þræðið upp á spjót og grillið í um 2 mínútur á hvorri hlið.

Sítrónudressing:
    1/2 bolli steinselja (ferskt hakkað)
    2 til 3 matskeiðar ólifuolía
    2 msk. sítrónusafi (ferskur er bestur)
    1 lítil hvítlaukur (hakkað)
    1/2 tsk. sjávarsalt
    1/4 tsk. pipar
    1/4 tsk. sætt sinnep

Aðferð: Öllu skellt í matvinnsluvélina og gott að bæta við ólífuolíu til að þynna ef þarf. Gott að bera fram með grilluðu grænmeti að eigin vali.

UPPSKRIFT 2
Pastasalat (fyrir 8-10 manns)

    700 g pasta t.d. skrúfur og/eða penne
    1 lítið brokkolíhöfuð
    1 gul paprika
    1 græn paprika
    1 askja kirsuberjatómatar
    5 vorlaukar
    1 búnt fersk steinselja
    1 bréf pepperoni eða sveita salami
    1 stk. Maribó ostur, skorinn í litla teninga (u.þ.b. 350 g)
    1 krukka svartar ólífur
    1 krukka sólþurrkaðir tómatar
    salt og pipar

Aðferð: Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum. Hellið vatninu af og látið pastað kólna alveg og setjið í stóra skál eða ofnskúffu, allavega það stórt ílát að hægt sé
að blanda öllu saman með góðu móti. Skerið, brokkolíið, paprikurnar, salami pylsuna og tómatana í frekar litla bita (svipaða á stærð og pastað). Saxið steinseljuna smátt, skerið ostinn í teninga, hellið vatninu af ólífunum en hafið þær heilar, skerið sólþurrkuðu tómatana í strimla og leyfið smá af olíunni að fara út í salatið og blandið öllu vel saman. Mælum með að nota góða dressingu með salatinu.

Verði ykkur að góðu!
Steinunn og Jón skoruðu á Freyju og Helga að taka við matgæðingskeflinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir