Kokkalandsliðið á leið til Stuttgart

Íslenska kokkalandsliðið, með Skagfirðinginn Kristinn Gísla Jónsson innan borðs, flaug til Stuttgart í Þýskalandi í morgun þar sem það tekur þátt í Ólympíuleikunum sem haldnir eru þar í landi dagana 14. til 19. febrúar nk.
Kristinn Gísli í Leifsstöð í morgun en fyrir ættfræðiþyrsta þá er Kristinn Gísli sonur Öldu Kristinsdóttur og Jóns Daníels Jónssonar á Sauðárkróki. Mynd: Valgerður Friðriksdóttir.
Á vefsíðu Veitingageirans kemur fram að sjálf keppnin hefjist 15. febrúar en kokkalandsliðið keppir í Chef´s table kl. 19:00 að íslenskum tíma þann sama dag. Heita eldhúsið, eða 110 manna keyrslan, verður 17. febrúar og hefst maturinn kl. 18:00 á íslenskum tíma, en undirbúningur stendur yfir allan daginn. Alls keppa 32 þjóðir á leikunum og verður hægt að horfa á beina útsendingu frá keppninni með því að smella HÉR.
Kristinn Gísli hefur verið einkar sigursæl í þeim keppnum sem hann hefur tekið þátt í en á síðasta ári sigraði hann ásamt félaga sínum Hinriki Lárussyni í alþjóðlegri matreiðslukeppni sem klúbbur matreiðslumeistara í Norður Grikklandi stóð fyrir. Árið 2017 landaði hann, ásamt Ásdísi Björgvinsdóttur nema á Bláa lóninu, silfurverðlaunum í Norrænu nemakeppninni matreiðslu- og framreiðslunema sem fram fór í Hótel og matvælaskóla Finna í Helsinki. Höfðu þau árið áður staðið uppi sem sigurvegarar í nemakeppni í matreiðslu og framreiðslu sem fram fór í Hótel- og matvælaskólanum.
Tengdar fréttir:
Kristinn Gísli í sigurliði í alþjóðlegri kokkakeppni
Kristinn Gísli sigraði í nemakeppni í matreiðslu
Skagfirðingur með silfur í Norrænu nemakeppninni
Tveir skagfirskir Íslandsmeistarar í iðn- og verkgreinum