Lætur Guðrúnu frá Lundi passa upp á hámarkshraðann

Ingunn Ásdís Sigurðardóttir. Aðsend mynd.
Ingunn Ásdís Sigurðardóttir. Aðsend mynd.

Ingunn Ásdís Sigurðardóttir var viðmælandi í Bók-haldinu í 39. tbl. Feykis 2018. Ingunn, sem titlar sig sem sérkennara á eftirlaunum, móður, ömmu, vinkonu og margt fleira, hefur lengi verið búsett á Sauðárkróki og starfað sem sérkennari við Árskóla. Ingunn segir lestrarvenjur sínar hafa tekið talsverðum breytingum í tímans rás og listinn yfir lesefni hennar er afar fjölbreytilegur enda segist hún eiga þó nokkur hundruð bóka í bókahillum heimilisins.

Hvers konar bækur lestu helst?
Lestrarvenjur mínar hafa tekið breytingum í gegn um tíðina.
Ég hef lesið heilmikið af fræðibókum í tengslum við starfið, kennslufræði og kenningar um líðan barna, birtingarmyndir og einkenni ýmiss konar vanda, kenningar greiningar og gagnleg úrræði. Listinn gæti orðið langur! 
Á álagstímum og þörf fyrir eitthvað „róandi“ að lesa fyrir svefninn var ég áður sólgin í að lesa leynilögreglu- og glæpasögur! Það gat reyndar stytt svefntímann ef þær voru mjög spennandi, en lesturinn hvíldi samt hugann sem annars var sífellt upptekinn við vinnutengdar lausnaleitir.
Nú hef ég betri tíma og nýt þess að lesa margs konar reynslusögur og ferðabækur, þó að notalegt „léttmeti“ sé alla jafna á náttborðinu líka. Ég las nýlega bókina Villt, eftir Sheryl Strayed, sem Elísa Jóhannsdóttir þýddi. Mæli með henni. Nú er ég líka heilluð af bókum Jenny Colgan í þýðingu Ingunnar Snædal, um Litlu bókabúðina í Hálöndunum og bækurnar um Bakaríið við Strandgötu.
Mér þykir gott að hlusta á hljóðbækur í bílnum. Góði dátinn Sveijk var lengi ferðafélagi minn og ég saknaði hans þegar bókin var búin. Nú eru sögurnar hennar Guðrúnar frá Lundi alltaf með í lengri ferðum. Hæg framvinda söguþráða þeirra tryggir að ég keyri ekki yfir hámarkshraða á meðan ég hlusta og lifi mig inn í gamla tímann, sem hún lýsir svo notalega.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Sem barn og unglingur gleypti ég í mig allar hefðbundnu barna- og unglingabækurnar sem bárust inn á heimilið og þóttu „strákabækurnar“ ekki lakara lesefni en þær sem voru kyrfilega merktar stelpum. Af „nýrri“ unglingabókum vil ég nefna perlurnar Benjamín Dúfu, eftir Friðgeir Erlingsson og bækur Guðrúnar Helgadóttur. Bækur Ole Lund Kirkegaard um Gúmmí Tarsan, Fúsa froskagleypi, Virgil litla o.fl. standa líka alltaf fyrir sínu.
Bókaskápurinn hans afa Þorbjörns, á bernskuheimili mínu, geymdi margt forvitnilegt. Afi hafði stundum þann sið að strika undir það sem honum þótti athyglisvert og grípandi í bókunum og skrifa athugasemdir á spássíurnar. Halla og Heiðarbýlið eftir Jón Trausta og sögur Þorgils gjallanda báru allar þessi merki og ég las þær af innlifun sem barn. Svo hafði ég líka dálæti á Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna?
Ég vel að nefna hér Guðrúnu Helgadóttur. Hún hefur gefið okkur dýrmætan bókmenntaarf, sem við þurfum að hlúa að og meta að verðleikum.

Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Þar kennir nú ýmissa grasa: Málkrókar eftir Mörð Árnason, Allar smásögur Tolstoys í þýðingu Gunnars Dal, Svar Soffíu, þýdd af Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur, Vitu og Benedikt S. Lafleur, Harry Potter og fanginn frá Azkaban eftir J.K. Rowling, Árið sem tvær sekúndur bættust við tímann í þýðingu Ingunnar Snædal, Konan í blokkinni eftir Jónínu Leósdóttur og Húnavaka 2018 halda mér félagsskap núna.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Við hjónin notum Héraðsbókasafn Skagfirðinga mjög mikið.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Það er alltaf nærandi fyrir sálina að koma í „alvöru“ bókabúðir með notalegu andrúmslofti. Bókastaflar á borðum stórverslana sem alla jafna selja matvöru o.þ.h. freista mín hins vegar ekki.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Vegna plássleysis er ég hætt að „safna“ bókum, en nýti mér bókasöfn og skiptibókamarkaði í staðinn. Eignast samt 3-4 á ári.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig? Þær tvær bækur sem eru Ingunni hjartfólgnastar. Blómálfabókin sem hún eignaðist þegar hún var á öðru ári og Ævisögubrot hennar sjálfrar sem hún fékk þegar hún varð sextug. Aðsend mynd.
Nefni hér tvær bækur sem eru mér hjartfólgnar: Fyrstu bókina sem ég eignaðist „sjálf“ fékk ég frá afa á Hofi er ég var á öðru ári. Hún heitir Blómálfabókin og var þýdd af Freysteini Gunnarssyni. Marglesin og skoðuð en ber aldurinn vel. Hina bókina gáfu synir mínir og fjölskyldur þeirra mér er ég varð sextug. Hún ber nafn mitt og undirtitilinn Ævisögubrot. Mjög persónuleg bók og stútfull af dýrmætum minningum.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Það færi algerlega eftir persónunni. Ástarljóð Páls Ólafssonar kæmu til greina, eða Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna, sem Silja Aðalsteinsdóttir valdi. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir