Stofnar til kynna við einn rússneskan höfund á ári

Gréta Björnsdóttir, niðursokkin í lestur.
Gréta Björnsdóttir, niðursokkin í lestur.

Gréta Björnsdóttir á Húnsstöðum svaraði spurningum Bók-haldsins í 10. tbl. Feykis á síðasta ári. Gréta starfaði við kennslu á  Húnavöllum í 31 ár en er nú sest í helgan stein. Hún hefur lesið mikið um dagana og á heil ósköp af bókum en einnig er hún fastagestur á Héraðsbókasafninu á Blönduósi. Gréta segist vera nánast hætt að kaupa bækur, vinni frekar í því að losa sig við þær en kaupi þó kannski eina til þrjár á ári fyrir sig sjálfa og einnig nokkrar til gjafa.

Hvers konar bækur lestu helst?
Ég les alls konar bækur, sennilega mest skáldsögur en einnig  ævisögur og ferðabækur og stundum ljóð. Fræðibækur les ég sjaldan, hef samt gert heilmikið af því gegnum árin. Fyrir nokkrum árum setti ég sjálfri mér fyrir að kynnast a.m.k. einum, gömlum, rússneskum höfundi árlega. Það er skemmtilegt verkefni, í fyrra las ég Tolstoj, Stríð og friður sem voru 4 bækur, og í ár ætla ég að lesa Doktor Zhivago eftir Boris Pasternak. Ég les líka núna eina til tvær Laxness-bækur á ári – ekki skáldsögurnar heldur hinar, t.d. Gerska ævintýrið, Þjóðhátíðarrollu o.s.frv.        

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Ég man mjög vel eftir fyrstu bókinni sem ég las. Hún heitir Snati og Snotra eftir Steingrím Arason og ég á hana ennþá. Ég held að ég hafi ekki verið mikið meira en fjögurra ára. Ég var að skoða hana og fór óvart að lesa kaflaheitin og svo textann á síðunum út frá því. Ég var alveg rosalega hissa því ég vissi ekki að ég kynni að lesa en las svo alla bókina. Ég man ekkert eftir þegar ég var að læra stafina en ég man þennan atburð greinilega. Margar barnabækur voru í miklu uppáhaldi hjá mér, Vísnabókin og Álfagull eftir Bjarna M. Jónsson voru kannski í sérflokki, seinna voru það Ævintýrabækurnar, Nonnabækurnar og heill bókaflokkur um unglingsstúlkuna Rósu Bennett.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Þær hafa verið margar en sennilega standast fæstar þeirra tímans tönn nema Kristín Lafransdóttir eftir Sigrid Undset sem ég hef lesið á nokkurra ára fresti síðan ég var unglingur og er alltaf jafngóð. Ég hef reyndar lesið Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi aftur og það var alveg jafn skemmtilegt og áður. Glitra daggir, grær fold og fleiri bækur eftir Margit Söderholm eru líka í þessum flokki. Bókin Vinirnir eftir Erich Maria Remarque var lengi upphaldsbókin mín, svo las ég hana aftur mörgum árum seinna og þá féll hún út af vinsældalistanum – þess vegna þori ég ekki að lesa aftur Hverjum klukkan glymur eftir Hemingway.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Ég hef átt ýmsa uppáhaldsrithöfunda  og ekki alltaf þá sömu. Ef ég les bók sem mér líkar vel les ég gjarnan allt sem ég næ í eftir þann höfund. Sá er í uppáhaldi þar til annar kemur. Höfundar eins og Þórbergur Þórðarson, Earnest Hemingway, Margit Söderholm,  Alexander McCall Smith, Liza Marklund, Harold Robbins, Halldór Laxness, Jo Nesbø og Guðrún frá Lundi. Ég gæti haft þennan lista mjög langan en þetta nægir.

Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Þessa dagana eru þar þrjár bækur: Brandarar handa byssumönnum, smásögur eftir Mazen Maarouf sem er palestínskur. Sögurnar gerast í Líbanon á stríðstímum og eru oftast sagðar frá sjónarhorni barna. Næst er spennusagan Blóðengill eftir Óskar Guðmundsson, gerist í Reykjavík. Síðan kemur Fortunu slysið í Eyvindarfirði á Ströndum 1787, heimildasaga eftir Guðlaug Gíslason og Jón Torfason. Hörmulegt slys þegar danskt verslunarskip á leið frá Skagaströnd til Danmerkur strandaði  fyrir rúmlega 230 árum og eftirmálar þeirra atburða. Allt áhugaverðar bækur.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Líklega Penninn Eymunsson á Akureyri og ef ég er í Kaupmannahöfn kíki ég oft í bókasafnið á Ráðhústorginu

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Ég hef aldrei talið bækurnar mínar – en ég taldi í einni hillu og þar voru 30 bækur af nokkuð eðlilegri þykkt. Hillurnar eru 15 svo ég  býst við tölu nálægt 500. Þá er allt talið með, barnabækur, innbundin tímarit, fræðibækur og skáldsögur.

Eru ákveðnir höfundar eða bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Ég fæ yfirleitt ekki lengur  bækur í jólagjöf. Þegar ég var unglingur og þaðan af yngri fékk ég oft fjölda bóka og hefði fundist bókalaus jól alger slysajól.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Ég á minningar um fjölda bóka frá því að ég var lítil og margar þeirra skoðaði ég eða las endalaust. En ég vil nefna tvær sérstakar og mamma átti þær báðar. Önnur er eftir H.C. Andersen, 48 ævintýri á dönsku með gamla letrinu. Ég las hana auðvitað aldrei því ég kunni ekki dönsku en það eru mjög fallegar teikningar við sögurnar og ég þekkti margar þeirra. Þessa bók fékk ég alltaf lánaða þegar ég var veik og lá í rúminu. Hún hefur vafalaust flýtt fyrir bata og við hana eru bundnar hlýjar minningar. Hin bókin er Ásgrímur Jónsson eftir Gunnlaug Ó. Scheving og Bjarna Guðmundsson. Þetta er æviágrip Ásgríms með margar svarthvítar teikningar úr þjóðsögunum og fullt af  olíu- og vatnslitamyndum í lit. Ég skoðaði þessa bók mjög oft og þótti mjög vænt um hana. Nú á ég báðar þessar bækur en skoða þær ekki eins oft og áður fyrr.  Ég verð líka að nefna Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Hana fengum við alltaf í hendur á Þorláksmessu og hún hvarf aftur á þrettándanum. En jólin hefðu ekki komið án hennar.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis? 
Ég hef  komið í safn H.C. Andersens í Óðinsvéum, hús Davíð Stefánssonar á Akureyri og í hús Harriet Beecher-Stowe í Boston. Jón Björnsson skrifaði bókina Á Jakobsvegi og ég gekk þann veg. Ég las líka heilmikið um Inkana í Perú og Machu Picchu áður en ég fór þangað.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Það fer eftir persónunum sem eiga að fá bókina. Ég gef barnabörnunum gjarnan fótboltabækur, Gunnar Helgason og Þorgrímur Þráinsson hafa reynst vel, annars gjarnan íslenskar skáldsögur. Nú um jólin gaf ég Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson og Forargata Reykjavík eftir Sólveigu Eggerz.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir