Stundar bachelornám í Kaupmannahöfn
Jón Þorsteinn Reynisson frá Mýrakoti á Höfðaströnd hélt Takk tónleika fyrir Tónlistarskóla Skagafjarðar síðasta þriðjudag, til að sýna þakklæti sitt sem fyrrum nemandi skólans og rann allur ágóðinn óskiptur til skólans. Jón Þorsteinn er yngstur fjögurra barna hjónanna Reynis Sveinssonar bónda og Önnu Kristínar Jónsdóttir bónda, organista og fyrrverandi tónlistarkennara.
Jón Þorsteinn er búsettur úti í Danmörku ásamt kærustu sinni Rakel Hinriksdóttur og eiga þau von á sínu fyrsta barni í september. Jón hefur verið í námi við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium frá árinu 2012 þar sem hann stundar bachelornám á harmoniku.
-Mín skoðun er sú að maður hafi alltaf gott af því að fara erlendis að læra, sjá alla hluti í stærra samhengi og vera í samfélagi með fleiri nemendum sem eru að gera svipaða hluti og maður sjálfur. Ég hef frá byrjun verið mjög ánægður með allt varðandi námið, sem krefst þess að maður leggi sig alltaf allan fram. Kennslan og aðstaðan er frábær og Kaupmannahöfn er dásamlegur staður að búa á, segir Jón Þorsteinn en viðtalið við hann er í nýjasta tölublaði Feykis.
Viðtalið í heild sinni má lesa í Feyki vikunnar.