Fréttir

Upplýsingavefur um sameiningarmál í Austur-Húnavatnssýslu

Húni.is segir frá því að nú hefur verið opnaður upplýsingavefur um sameiningarmál sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu þar sem er að finna fréttir og tilkynningar, fundargerðir, minnisblöð og aðrar upplýsingar sem tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur- Húnavatnssýslu; Skagastrandar, Skagabyggðar, Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps, sem nú eiga í viðræðum um sameiningu. Slóðin á vefinn er:sameining.huni.is.
Meira

Vel heppnað námskeið fyrir ferðamálafélaga

Síðastliðinn þriðjudag var félagsmönnum í Ferðamálafélagi Austur-Húnavatnssýslu og Félagi ferðaþjónustunnar í Skagafirði boðið á námskeið í Húnaveri þar sem fjallað var um þjóðerni og þjónustu. Á námskeiðinu fjallaði Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur um þjónustu, ólíka menningarheima og hvernig best sé að uppfylla þarfir ólíkra gesta. Margrét hefur sérhæft sig í námskeiðahaldi um þjónustu og hefur meðal annars gefið út fimm bækur um þjónustu og sex íslensk þjónustumyndbönd. Námskeiðið skipulagði Þórdís Rúnarsdóttir, ferðamálafulltrúi Austur-Húnavatnssýslu ásamt Margréti Reynisdóttur.
Meira

Hefjum nýjar hefðir og viðhöldum gömlum - Rakel Halldórsdóttir, starfsmaður Matís í viðtali

Í umfjöllun um námskeið Farskólans, Opin smiðja – Beint frá býli, í 8.tölublaði Feykis var greint frá því að til standi að opna matarmarkað í gamla pakkhúsinu á Hofsósi í sumar á vegum Matís. Umsjón með því verkefni hefur starfsmaður Matís sem nú er búsettur á Hofsósi, Rakel Halldórsdóttir sem stofnaði og rak verslunina Frú Laugu um árabil ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum. Feykir leit við hjá Rakel í Frændgarði, einu af húsum Vesturfarasetursins á Hofsósi, þar sem hún hefur skrifstofuaðstöðu.
Meira

Hugmynd um að byrja kennslu síðar að deginum næsta vetur

Skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra óskar, á fésbókarsíðu skólans, eftir viðbrögðum, athugasemdum og skoðunum foreldra og hagsmunaaðila við þá hugmynd að byrja kennslu kl. 9:00 í stað 8:30 næsta vetur. Jákvæður vilji er fyrir hugmyndinni meðal starfsmanna skólans en mikilvægt er að fá fram sjónarmið sem langflestra foreldra við hugmyndinni áður en hún verður tekin til frekari skoðunar, eða slegin út af borðinu.
Meira

Nemendur fá val um endurtöku könnunarprófa

Nemendum í 9. bekk gefst kostur á að þreyta að nýju könnunarpróf í ensku og íslensku, en margir þeirra tóku próf við óviðunandi aðstæður í liðinni viku. Þátttaka í könnunarprófunum verður valkvæð, samkvæmt ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Stjórnendur í hverjum skóla ákveða hvort þeir leggja prófin fyrir nemendur sína í vor eða haust.
Meira

Dalalíf vinsælasta bókin á bókasöfnum landsins

Ótrúlegt, en alveg satt, þá er þetta ekki frétt frá fimmta áratug síðustu aldar. Það er nefnilega þannig að skáldsagan Dalalíf, eftir skagfirska rithöfundinn Guðrúnu frá Lundi, reyndist vera sú bók sem oftast var lánuð út á almenningsbókasöfnum landsins árið 2017, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum fengu vel á fimmta þúsund manns Dalalíf lánaða.
Meira

Mottumarshátíð í Miðgarði í kvöld

Kiwanisklúbburinn Drangey og Krabbameinsfélag Skagafjarðar stendur fyrir mottumarshátíð í menningarhúsinu Miðgarði í kvöld, 15. mars. Hátíðin hefst klukkan 19 og er aðgangur ókeypis en þeir sem vilja styrkja Krabbameinsfélag Skagafjarðar geta látið fé af hendi rakna í þar til gerðan kassa er verður í anddyrinu í Miðgarði.
Meira

Styttist í frumsýningu Adrift hjá Baltasar Kormáki

Skagfirski kvikmyndabóndinn, Baltasar Kormákur frá Hofi, frumsýnir í byrjun júni sína nýjustu Hollywood stórmynd, Adrift (Á reki), en myndin er heljarins drama. Adrift byggir á sönnum atburðum og segir af siglingu Tami Oldham og Richard Sharp um Kyrrahafið sem reyndist ekki bera nafn með rentu.
Meira

Stefán Vagn á Alþingi

Stefán Vagn Stefánsson varaþingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi var einn þeirra fimm varamanna er tóku sæti á Alþingi sl. mánudag. Hann kemur í stað Ásmundar Einars Daðasonar, félags - og jafnréttismálaráðherra, sem situr 62. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Stefán Vagn fær innsýn í nefndarstarf Alþingis sem þingmaður og hefur nú tekið sæti í velferðarnefnd og utanríkismálanefnd Alþingis.
Meira

Öflugt umferðareftirlit lögreglunnar á Norðurlandi vestra

Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur verið með öflugt umferðareftirlit undanfarna daga og hafa ökumenn sem ekki fara að lögum verið sektaðir. Lögreglan biður ökumenn að virða hámarkshraða á vegum og sýna tillitssemi í umferðinni. Um liðna helgi voru 101 ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur, sá sem hraðast ók var mældur á 151 km hraða á klukkustund í Blönduhlíð í Skagafirði, þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.
Meira