Kjúklingur og avokadó hamborgarar

Árni Gísli og Heiða. MYND AÐSEND
Árni Gísli og Heiða. MYND AÐSEND

Matgæðingur í tbl 39, 2022, var Árni Gísli Brynleifsson. „Kem úr dalnum sem guð skapaði, Hjaltadal,“ segir hann. Árni vinnur hjá langtímaleigudeild Bílaleigu Akureyrar en er með starfsstöð á Sauðárkróki. Eiginkona hans er Heiða B. Jóhannsdóttir, frá Sauðárkróki, en hún er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir að mennt og vinnur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki. Saman eiga þau þrjú börn; Louisu Lind (16 ára), Ingólf Snæ (9 ára) og Evu Líf (5 ára). 

 „Í nútímasamfélagi er tíminn alltaf minni og minni, auðvitað skilur það nú samt enginn því sólahringurinn hefur nú ekki styst mikið svo ég viti, hins vegar höfum við hjónin fundið okkur knúin til að finna upp á, já eða jafnvel stela, auðveldum og þægilegum uppskriftum af mat sem auðvelt er að koma ofan í börnin okkar. Það er því okkar einlæga ánægja að fá að deila með ykkur einni svona “sukk“ föstudagsuppskrif og einni svona léttari, ferskari og hollari hversdagsuppskrift,“ segir Árni.

UPPSKRIFT 1
Kjúklingur með kús kús og kasjúhnetum

    4-5 kjúklingabringur
    1 sæt kartafla
    gulrætur
    tómat og chili kúskús
    paprika
    gúrka
    salat
    rauðlaukur
    kasjúhnetur

Aðferð: Kjúklingur er skorinn í teninga og steiktur á pönnu, kryddað eftir smekk (við notum oftast kalkúnakrydd og Chicken and Steak krydd). Sæt kartafla
skorin í litla bita og gulrætur í sneiðar, sett í eldfast mót og hitað í ofni þar til þetta er orðið vel mjúkt. Kjúklingnum og kúskúsinu er dreift yfir gulræturnar og sætu kartöfluna. Endað á að dreifa ferska grænmetinu yfir allt í eldfasta mótinu og að lokum dreifa kasjúhnetunum yfir.

UPPSKRIFT 2
Avokadó hamborgarar – börnin okkar ELSKA þetta

    1 kg hakk
    300 g beikonkurl
    1 lítil krukka af taco sósu (við notum medium)
    1 bréf taco krydd mix.
    300 g rifinn ostur

Aðferð: Beikonkurlið er steikt og síðan öllu skellt saman í skál, og hrært vel saman, mikilvægt að gera þetta með höndunum (að sjálfsögðu þrífa hendur áður) og blanda öllu vel saman. Því næst er gott að skella í hamborgarana, við höfum þá sirka 170-180 g (ath! það er mikill vökvi sem fer úr þessu). Ættuð að ná í u.þ.b. 9-10 hamborgara. Mikilvægt að eiga næga afganga, fyrir börnin. Þegar búið er að steikja/grilla hamborgarana þá er þetta borið fram. Börnunum okkar finnst gríðarlega mikilvægt að það sé rétt gert. Fyrst er hamborgarabrauðið smurt með avokadó sósu (keyptri, þetta á að vera fljótlegt) og síðan er blátt Doritos mulið yfir, síðan kemur kjöt, smá meira Doritos og endað á að setja avokadó á brauðlokið og lokað.

Verði ykkur að góðu!

Helgi Svanur Einarsson og Gígja Hrund Símonardóttir tóku svo við keflinu af Árna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir