Setti á sig svuntuna og reyndi sitt besta

Magnús og dæturnar til beggja hliða. Mynd: AÐSEND
Magnús og dæturnar til beggja hliða. Mynd: AÐSEND

Matgæðingur vikunnar í tbl 39 var Magnús Ásgeir Elíasson sem býr á Stóru Ásgeirsá í Húnavatnssýslunni. Þar stundar hann smá búskap ásamt því að reka hestaleigu og gistingu. Vinkona hans á næsta bæ, Sigríður Ólafsdóttir í Tungu, skoraði á hann að taka þetta verkefni að sér því hún taldi hann vera betri kokk.

Magnús var nú ekkert sérlega kátur með þessa áskorun en ákvað að taka þetta á jákvæðu nótunum, setti á sig svuntuna og reyndi sitt besta. Það sem kom fyrst upp í huga hans var hafragrautur með rjóma og púðusykri eða skyr með rjóma en það er eitthvað sem allir kunna að gera og varð því eitthvað allt annað fyrir valinu í þennan þátt.

Lambafille 

1,2 kg af lambafille – miðað við fjóra fullorðna

Aðferð:

Skera rákir í fituna. Strá smá salti og pipar á kjötið. Skella því svo á grillið en ekki of lengi samt.  

Sósa:

1 stk. steyptur sveppaostur

500 ml rjómi

Skera sveppaostinn í bita, setja í pott, hella rjómanum í pottinn og hita upp. Hræra reglulega í svo sósan endi ekki í kekkjum.

Meðlæti:

Skera kartöflur, sætar kartöflur og lauk í hæfilega bita. Setjið í eldfast mót. Kryddið með salti og pipar og hellið svo dass af olíu yfir herlegheitin og inn í ofn. Hitið ofninn í 200°C og bakið í 30-40 mínútur eða þangað til að grænmetið er orðið meyrt í gegn og hefur tekið smá lit. Gott að hræra upp í grænmetinu á 10 mínútna fresti.

Svo er gott að njóta með góðu rauðvínsglasi.

Kjötsúpa Magga

- uppskrift að 40 lítra súpu

3-4 stk. lambaframpartar

3-4 stk. lambalæri

Dass af salti

2 pokar súpujurtir

Dass af pipar

5-6 stk. rófur

2 kg kartöflur

2 kg gulrætur

5-6 stk. lauka

Dass af hrísgrjónum

Slatta af súpukröftum

Dass af sojasósu

Smá pizzu krydd 

Dass af lambakrafti

Aðferð:

Setjið kjötið í stóran pott ásamt öllu framangreindu, bætið hæfilega miklu vatni í og sjóðið í sex klukkuktíma. Áður en allt er sett í pott er gott að skera niður allt grænmetið í góða munnbita.  

 

Magnús skorar á Ólöfu Rún Skúladóttur á Sólbakka II að taka við og er hún einmitt í tbl 42 sem kom út á miðvikudaginn. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir