Steikt svínasíða og öskudagsbollur

Ditte og Frímann Viktor með börnin. AÐSEND MYND
Ditte og Frímann Viktor með börnin. AÐSEND MYND

Það eru þau Frímann Viktor Sigurðsson og Ditte Clausen í Varmahlíð sem sáu um matarþáttinn í tbl 6 á þessu ári en það var hann Gunnar Bragi sem skoraði á þau að bjóða upp á eitthvað danskt því Ditte er frá Suður Jótlandi en hefur búið hér síðustu tíu árin.

Frímann er hreinræktaður Skagfirðingur og eiga þau saman þrjú börn. „Gunnar Bragi bað um að fá danskan mat þannig að hvað er betra en þjóðarréttur Dana, steikt svínasíða með steinseljusósu. Svo styttist í öskudaginn og því tilvalið að skella í danskar öskudagsbollur eða fastelavnsboller,“ segir Ditte.

AÐALRÉTTUR
Stegt flæsk med persillesovs (steikt svínasíða með steinseljusósu)
     800g svínasíða í sneiðum

Steinseljusósa:
     smjör
     hveiti
     nýmjólk
     1 búnt steinselja (eða hæfilegt magn af þurrkaðri steinselju)
     salt og pipar

Meðlæti:
     kartöflur
     soðnar gulrætur

Aðferð: Í Danaveldi finnur maður svínasíðu í sneiðum enda um þjóðarrétt Dana að ræða. Ég hef ekki séð tilbúnar sneiðar í kjötborðinu í okkar helstu búð.
Þess vegna legg ég til að kaupa svínasíðu og sneiða hana niður í 1/2 sm þykkar sneiðar. Saltið sneiðarnar með flögusalti og steikið þær á pönnu þangað til þær eru passlega stökkar, smekksatriði. Okkur finnst best þegar sneiðarnar eru fallegar brúnar. Ég á erfitt með fylgja uppskriftum þannig að ég slumpa alltaf í sósuna. Hún er eins og hver önnur uppbökuð sósa (jafningur). Smjörið er brætt í potti og hveiti stráð út í og hrært stöðugt með pískara þangað til úr verður slétt og fín bolla. Þynnt rólega í nokkrum skömmtum og hrært stöðugt í. Hökkuð steinselja er sett út í sósuna og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með kartöflum og soðnum gulrótum.

EFTIRRÉTTUR
Danskar öskudagsbollur - um 35-40 stk.

Deig:
     250 g smjör eða smjörlíki
     5 dl mjólk
     1 bréf þurrger
     75 g sykur
     1/2 tsk. salt
     1 egg
     800-950 g hveiti

Fylling: Vanillukrem

Aðferð: Enginn öskudagur er án öskudagsbolla hjá okkur og þá sækjum við helst í danskar gerbollur með kremi. Smjörið brætt og sett í skál með mjólk, sykri, salti og eggi. Þurrgerið blandað við hluta af hveitinu og sett út í. Restin af hveiti sett út í smátt og smátt. Deigið á að vera mjúkt og teygjanlegt. Gott að hræra deigið með hrærivél í um tíu mínútur. Látið hvíla í um hálftíma. Á meðan deigið er að hvíla má gera vanuillukremið. Ég nota alltaf Dr. Oetker eða Gestus vanillukremið, einfalt og gott. Blandið saman 5 dl af mjólk og duftinu úr pokanum. Þegar deigið er búið að lyfta sér þarf að skipta því í tvennt. Fletjið aðra kúluna út í u.þ.b. 3-4 mm þykkt og skerið í ferkant, um 12x12 sm. Setið um eina teskeið af vanillukremi í hvern ferkant. Þá er bara að loka þeim þannig að kremið renni ekki út við bakstur, en það er vandaverk. Takið hvert horn inn á miðju, svo þarf að klemma kantana aðeins og taka nýju hornin inn. Gott er svo að rúlla bollunum varlega svo að þær lokist alveg. Já þetta hljómar mjög flókið en er það ekki. Bollurnar eru settar á bökunarplötu með bökunarpappír undir og látið hvíla í um 45 mínútur undir röku viskastykki. Hitið ofninn í 240°C (ekki blástur). Bollurnar verða flottari ef þær eru penslaðar með mjólk áður en þær fara inn í ofninn. Gott ráð er að búa til smá dæld í miðjunni áður en þær fara inn í ofninn. Bakað í um tólf mínútur og látið kólna áður en skreytt er með glassúr eftir smekk. Okkur finnst betra að setja súkkulaði á þær í staðinn fyrir glassúrinn.

Verði ykkur að góðu! 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir