Ungversk gúllassúpa og ís með kantalópu og súkkulaðisósu

Júlía Pálma og Óskar Friðrik. AÐSEND MYND
Júlía Pálma og Óskar Friðrik. AÐSEND MYND

Matgæðingar í tbl 22, 2021, voru Júlía Pálmadóttir Sighvats og eiginmaður hennar, Óskar Friðrik Sigmarsson. Þau fengu áskorun frá Birgittu, móður Júlíu, en þau hjónakorn búa í Breiðholti í Reykjavík. Júlía er uppalin á Sauðárkróki og finnst þeim alltaf jafn gott að komast í „sveitina“ með börnin til að hitta afa og ömmu.

„Einn af okkar uppáhaldsaðalréttum er ungversk gúllassúpa. Við gerum oft þessa súpu þegar haldin eru barnaafmæli og þá skiptir eiginlega engu máli hvað við eldum mikið, það er alltaf skafið úr pottinum. Hún er alveg einstaklega góð borin fram með nýju súrdeigsbrauði og smjöri, enn betra ef þeytt smjör er í boði, svo er gott að bjóða upp á sýrðan rjóma með. Lykilatriðið við þessa súpu er að hafa gott kjöt og skera allt hráefnið í litla bita þannig að auðvelt sé að borða súpuna,“ segir Júlía. Uppskriftin kemur upprunalega frá www.eldhussogur.is og nota þau hana að mestu leyti eins og fram kemur þar.

AÐALRÉTTUR
Ungversk gúllassúpa - Uppskrift – fyrir 4 fullorðna
    600 g gott nautakjöt
    1 rauð paprika, skorin í bita
    1 gulur laukur
    5-6 meðalstórar kartöflur (alls ekki meira en 6)
    3 meðalstórar gulrætur
    1 msk. paprika (krydd)
    1½ tsk. cumin
    salt og pipar
    chili krydd eftir smekk (við höfum notað chili explosion, passa að setja bara lítið í einu)
    2 msk. góð ólívuolía
    1 lítri kjötkraftur
    3 hvítlauksgeirar, pressaðir
    2 msk. smjör
    1-2 msk. tómatpúrra

Aðferð: Kjötið er skorið í litla bita, aðeins minni bita en ef það væri borðað með hníf og gaffli. Laukurinn afhýddur og skorinn smátt og paprika er skorin í smáa bita – u.þ.b. 1x1 cm. Svo þarf að flysja kartöflurnar og gulræturnar og skera í frekar litla bita. Kjöt, laukur og paprika eru síðan steikt upp úr góðri olíu í stórum potti, kryddunum er síðan bætt út í Þetta er steikt þar til kjötið hefur fengið á sig lit og þá nautakraftinum og tómatpúrrunni bætt út í. Öllu hrært vel saman og hitað upp að suðu, þegar suðan er komin upp þá smjöri og hvítlauk bætt út í. Þetta er síðan allt látið malla í 50-60 mínútur, þegar um 15 mínútur eru eftir af suðutímanum skal bæta kartöflum og gulrótum út í súpuna. Súpan er alls ekki verri þegar hún er hituð upp, hún er bara svo góð að það er sjaldnast afgangur til að njóta þess.


EFTIRRÉTTUR
Ís með kantalópu og súkkulaðisósu
Einfaldur og góður eftirréttur er vanilluís með kantalópu melónu og heitri, storknandi súkkulaðisósu sem er heimagerð og afar einföld.

    Vanilluís (tegund sem hver og einn velur)
    Kantalópu melóna
    50 g Nóa Síríus 70% súkkulaði
    1 tsk. kókosolía

Aðferð: Kantalópan er skorin í litla bita – minna en 1x1 cm. Súkkulaðið er hitað yfir vatnsbaði og kókosolíunni bætt út í, hræra þetta tvennt vel saman. Ísinn er svo borinn fram með melónu og súkkulaði dreift yfir ísinn í mjórri bunu, eftir stutta stund storknar það á ísnum og er dásamlega gott með melónunni.

 Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir