V-Húnavatnssýsla

Húnaþing vestra telur sameiningu ekki koma til greina

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær var fjallað um hugmyndir um sameiningu allra sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra. Kom þar fram að sveitarfélögin Skagafjörður og Skagabyggð séu að hefja formlegar sameiningarviðræður og var stofnuð samninganefnd fyrir viðræður þeirra í milli nú í vikunni. Formaður samninganefndarinnar og oddviti Skagabyggðar, Vignir Sveinsson, sagði í samtali við fréttastofu að hann sjái fyrir sér að allt svæðið geti verið eitt þar sem innviðir sveitarfélaganna byggi á svipuðum greinum. „Mín skoðun er sú að þetta svæði sé það líkt að það geti alveg orðið,” segir hann. „Greinarnar okkar eru náttúrulega sjávarútvegur, landbúnaður og þjónusta. Þannig að ég sé alveg fyrir mér að þetta svæði geti verið eitt. Alveg algörlega,” sagði Vignir í samtali við fréttastofu.
Meira

Þríþraut USVH

Í dag klukkan 17:30 stendur Ungmennasamband Vestur-Húnavatnssýslu fyrir þríþrautarkeppni á Hvammstanga. Boðið verður upp á keppni í flokki einstaklinga, liða og krakka liða (14 ára og yngri). Liðin mega vera blönduð. Einn syndir, einn hjólar og einn hleypur. Þátttakendur skulu mæta við Íþróttamiðstöðina á Hvammstanga klukkan 17:10 en keppni hefst klukkan 17:30.
Meira

Vegagerðin veitir fé til styrkvega í Húnaþingi vestra

Vegagerðin hefur samþykkt að veita 1.800.000 krónum til styrkvega í Húnaþingi vestra á árinu 2017 og var bréf þess efnis kynnt á fundi landbúnaðarráðs sveitarfélagsins þann 19. júlí sl. eins og kemur fram í fundargerð þess. Skv. vegalögum nr. 80/2007 er heimilt að ákveða fjárveitingu í vegáætlun til að styrkja tilteknar samgönguleiðir, svokallaða styrkvegi, sem ekki falla undir skilgreiningar vega skv. lögunum. Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir tveimur milljónum króna til þess verkefnis og er því samanlögð upphæð til verkefnisins 3,8 milljónir króna.
Meira

Breyttar reglur um heimagistingu og um fjölda salerna

Á vef Heilbirgðiseftirlits Norðurlands vestra kemur fram að þann 21. júní sl. voru gerðar breytingar á reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og tóku breytingarnar gildi strax við birtingu. Með breytingunum eru meðal annars reglur um heimagistingu rýmkaðar þannig að ekki er lengur gert ráð fyrir reglulegu eftirliti né starfsleyfi Heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Breytingarnar tóku einnig til reglna um fjölda salerna í veitingastöðum og samkomuhúsum þannig að felld voru úr gildi ákvæði í hollustuháttareglugerðinni um fjölda snyrtinga sem voru vægari en kröfur þær sem settar eru fram í byggingarreglugerð sem gerir það að verkum að ákvæði byggingarreglugerðar standa og getur því breytingin kallað á að víða þurfi að ráðast í breytingar á aðstöðu strax.
Meira

Miðfjarðará enn í öðru sæti

Laxveiði sumarsins í Miðfjarðará er nú komin í 1570 laxa og er hún enn í öðru sæti yfir aflahæstu ár landsins samkvæmt upplýsingum á angling.is, vef Landssambands veiðifélaga. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst þar 1996 laxar þannig að veiðin er enn talsvert dræmari en í fyrra. Sömu sögu er að segja um allar ár á svæðinu, utan Laxá á Ásum, sem er í ellefta sæti á listanum, en þar hafa veiðst 438 laxar miðað við 291 í fyrra. Að vísu ber að geta þess að nú er veitt á fjórar stangir í stað tveggja í fyrra. Blanda hefur gefið 913 laxa og er í fimmta sæti en sambærilegar tölur í fyrra voru 1681 lax.
Meira

Rýmisgreind

Það getur verið erfitt að átta sig á því hvað maður hefur stóran afturenda. Að minnsta kosti hefur hann ekki verið alveg með þá hluti á hreinu, bílstjórinn sem lagði húsbílnum sínum við Lyfju á Sauðárkróki í dag og tók í það bæði bílastæðið og aðra akreinina. Ekki alveg til fyrirmyndar, - eða hvað?
Meira

Eldurinn hefst í dag

Hátíðin Eldur í Húnaþingi verður sett klukkan 19:00 í dag á Hvammstanga. Að þessu sinni verður opnunarhátíðin sérlega glæsileg en hún hefst með skrúðgöngu frá Félagsheimilinu sem endar á hafnarsvæðinu hjá Sjávarborg. Í fararbroddi verða eldfuglar og fleiri skemmtilegar verur ásamt því sem tónlist og almenn gleði verður í göngunni. Niðri á hafnarsvæðinu tekur Eldurinn á móti hátíðargestum og geta þeir hlýtt á tónlist, gætt sér á kjötsúpu, fylgst með Húlludúllu leika listir sínar, keypt góðgæti í Elds-sjoppunni og ýmislegt fleira skemmtilegt.
Meira

Margt bera að varast í hitanum

Matvælastofnun hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu þar sem hún vill vekja athygli hundaeigenda á að varast ber að skilja hunda eftir í bílum í miklum hita.
Meira

Synti yfir Hrútafjörð

Fyrir nálægt 80 árum síðan eða þann 27. ágúst 1937, birtist svohljóðandi frétt í Vísi. „Síðastliðinn þriðjudag syntu yfir Hrútafjörð frá Gilsstöðum til Borðeyrar Baldur Pálsson 27 ára, Ásta Snæbjörnsson 20 ára og Hulda Pétursdóttir 16 ára, öll frá Borðeyri. Vegalengdin er um 1100 metrar og synti Hulda hana á 23 mínútum og var um 6 mínútum á undan hinum. Sjávarhiti var 8 stig. Ekki er kunnugt um að áður hafi verið synt yfir Hrútafjörð."
Meira

Meinholl Mexíkó súpa og sykurlaus súkkulaðibúðingur

Það voru þau Eggert Örn Kristjánsson, Þóra Björg Kristmundsdóttir og Helgi Freyr Guðmundsson í Enniskoti í Húnaþingi vestra sem gáfu lesendum uppskriftir í 29. tölublaði Feykis árið 2015.
Meira