Rannsókn lokið á örslátrun í Birkihlíð - Með stöðu sakbornings

Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson, bændur í Birkihlíð í Skagafirði. Mynd: PF.
Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson, bændur í Birkihlíð í Skagafirði. Mynd: PF.

„Ég veit ekki betur en að lögreglan sé búin að rannsaka málið og senda það frá sér. Þá á eftir að taka um það ákvörðun hvort saksóknari haldi málinu til streitu eða felli niður,“ segir Þröstur H. Erlingsson bóndi í Birkihlíð í Skagafirði sem kærður var, ásamt Sveini Margeirssyni fv. forstjóra MATÍS, fyrir dreifingu og sölu á heimaslátruðu lambakjöti á bændamarkaði á Hofsósi á síðasta ári.

Um svokallaða örslátrun var að ræða og til þess gerð að vekja athygli á þeim möguleika að bændur gætu slátrað heima á löglegan hátt. „Í þessu augnamiði voru m.a. framkvæmdar ítarlegar örverumælingar á lambsskrokkunum og komu þær mjög vel út,“ sagði Sveinn Margeirsson, fv. forstjóri Matís, í viðtali við Feyki í október í fyrra. „Örslátrunin var tilraun til að láta á það reyna hvort sauðfjárbændur væru í stakk búnir til að auka verðmætasköpun í sveitum landsins með slátrun, vinnslu og sölu beint til neytenda. Niðurstaðan sýnir ótvírætt að slíkt er mögulegt, ef rétt er að málum staðið og ef lögð verður vinna í að láta reyna á undanþáguákvæði evrópsku matvælalöggjafarinnar,“

Frá örslátrun sem Matís stóð fyrir í Birkihlíð á seinasta ári. Mynd: Matís.Ekki liggja neinar niðurstöður fyrir úr verkefninu þar sem ekki hefur verið unnið úr gögnum sem aflað var í Birkihlíð vegna fjárskorts. „Þetta verkefni bara stoppaði, engin fjármögnun á því og ekkert unnið í þessu. Það liggur ekki neitt tilbúið sem við getum sent frá okkur sem hefur eitthvað að segja,“ segir Oddur M. Gunnarsson, starfandi forstjóri MATÍS, aðspurður um hvort vænta mætti að niðurstöður verkefnisins yrðu gerðar opinberar.

Þröstur segir þetta verkefni hafa verið á höndum MATÍS á sínum tíma en verið framkvæmt á búi hans þar sem aðstaða sé góð og vinnslurými samkvæmt öllum settum reglum. „Þetta var gert til að sýna fram á að þetta sé hægt og gæðin væru í góðu lagi.“

Atvinnuskapandi fyrir bændur
Hvaða áhrif þetta hafi á framleiðslu Birkihlíðar segir Þröstur þetta hafa verið góða auglýsingu fyrir hann. Enginn sem hann hefur talað við hefur verið að agnúast út í þetta. „Menn hafa aðallega verið að hlægja að þessum viðbrögðum Matvælastofnunar. Mönnum blöskrar þau. Það hefur verið slátrað heima í 1000 ár og stór hluti þjóðarinnar sem étur heimaslátrað kjöt. Það er sama við hvern maður talar, flestir eru með einhvers konar tengsl við bónda sem slátrar heima.“

Auk mjólkurframleiðslu eru Þröstur og hans fjölskylda með yfir 140 kindur og selja allar afurðir sjálf. Slátrað er á löglegu sláturhúsi en allt unnið heima og selt til almennings. Þröstur segist einnig vera með nautakjöt en mest af því fari enn lagt inn í sláturhús. „Það er enginn vafi að þetta getur sparað og verið atvinnuskapandi fyrir bændur. Það er ómögulegt að segja hvernig þetta þróast.  Vonandi kemur bara meiri gæði út úr þessu.“

Tengdar fréttir: 

Innköllun á heimaslátruðu lambakjöti 
Mikilvægt að styðja bændur til að skapa eigin verðmæti 
Sala á heimaslátruðu lambakjöti kærð til lögreglu 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir