Tón-Lystin

Hvar er draumurinn bráðnaði í sumarsólinni / BINNI RÖGNVALDS

Binni Rögnvalds er fæddur á því herrans eitís ári 1984. Hann er sonur Hrannar og Rögga Valbergs tónlistarkennara og organista og alinn upp á Króknum og býr þar í dag. Binni spilar aðallega á gítar en þó einnig á píanó, bassa og ýmis önnur hljóðfæri. Helsta afrek sitt á tónlistarsviðinu segir hann vera að hafa árið 2011 gefið út plötuna A Little Trip með frumsömdum lögum og textum. Hann hefur spilað inn á ýmsar plötur, þar á meðal fyrir rapparann Ramses, og tekið þátt í allskonar tónleikum og giggum í gegnum árin og þá tók Binni þrisvar sinnum þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna, ávallt með frumsamin lög.
Meira

„Appetite for Destruction umturnaði mér“ / GESTUR GUÐNA

Gestur Guðnason er alinn upp á Króknum en býr nú í Reykjavík og starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Seltjarnarness og Tónsali. Gestur er af árgangi 1975, sonur Valgerðar Einarsdóttur og Guðna Friðrikssonar. Hljóðfæri Gests er gítar en hann segist kunna Bleika pardusinn á píanó og Come As You Are á trommur. „Myndi samt hvorugt sitja með taktmæli,“ segir hann og heldur áfram: „Ég hef þó spilað rafbassa inn á eigin upptökur og líka á hestamannaballi í Húnavatnssýslu. Á það líka til að hefja upp raust mína – flokkast röddin ekki sem hljóðfæri?“ Aðspurður um helstu tónlistarafrekin segir hann: „Ef ég þarf að gera upp á milli margra skemmtilegra verkefna sem ég hef tekið þátt í, held ég að ég yrði að nefna þau tvö sem ég hef lagt mesta vinnu í sjálfur en það eru tvær breiðskífur sem innihalda báðar eingöngu mín lög og texta. Sú fyrri er platan Lykill að skírlífsbelti með Númer Núll, sem ég gaf út árið 2008, og seinni platan Höfuðsynd með Atónal Blús, sem ég gaf út árið 2014.“
Meira

„Það bara gerðist eitthvað!“ / HIMMI SVERRIS

Hilmar Sverrisson (Himmi Sverris) hefur víða komið við í músíkinni, enda telur hann það vera helsta afrek sitt í tónlistinni að vera á lífi og hafa getað haft tónlist sem aðalatvinnu síðustu 30-35 ár og fengið að starfa með flestum bestu tónlistarmönnum landsins. Himmi fæddist á Króknum árið sem rokkið varð til (1956), ólst upp í Viðvík til átta ára aldurs en flutti þá á Krókinn og bjó þar ansi lengi. Kona hans er Vestur-Húnvetningurinn Jenný Ragnarsdóttir og búa þau nú í Kópavogi.
Meira

„Keith Jarret og kaffi á sunnudagsmorgni er ofsa góð blanda“ / HARPA ÞORVALDS

Tónlistarkonan Harpa Þorvaldsdóttir er uppalin á Hvammstanga en býr nú í Reykjavík. Harpa er dóttir Þovaldar Böðvarssonar, fyrrum rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Norðurlandi vestra, og Hólmfríðar Skúladóttur. Harpa hefur sungið síðan hún man eftir sér en hljóðfærið hennar er píanó. „Hef ekki geta skilið það við mig frá því ég byrjaði að læra 6 ára gömul,“ segir Harpa, en hún kemur fram á tónleikum á Hvammstanga þann 4. júní til styrktar Menningarfélagi Húnaþings vestra.
Meira

Syngur gömul íslensk dægurlög í sturtunni / SIGURLAUG VORDÍS

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir býr í Skógargötunni á Sauðárkróki en alin upp í Sunnuhvoli í Hofsósi. Silla er ljómandi góð söngkona sem hefur víða komið við en er kannski þekktust fyrir frammistöðu sína með eðalbandinu Contalgen Funeral. Auk þess að syngja grípur hún í skeiðar, greiður og jafnvel bein til gamans. Nú í Sæluvikunni er Sigurlaug Vordís í fylkingarbrjósti hópsins sem stendur fyrir uppsetningu á tónlistarveislunni Árið er í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki.
Meira

„David Gilmour var, er og verður uppáhalds“ / SVABBI

Að þessu sinni er það Svavar Sigurðsson mjólkurfræðingur hjá Mjólkursamlagi KS sem svarar Tón-lystinni. Svabbi er fæddur 1969, sonur Helenu Svavarsdóttur og Reynis Barðdal, fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og segist heimakær með afbrigðum. Verkfæri Svabba í tónlistinni er gítar og spurður um helst tónlistarafrek svarar hann: „Hljómsveitin Herramenn á sínum tíma, það var nú alveg nægilegt fyrir mig.“
Meira

Best er þegar bæði lag og texti eru í háum gæðaflokki / FELIX BERGSSON

Að þessu sinni er það ljúflingurinn Felix Bergsson sem svarar Tón-lystinni. Felix þekkja örugglega flestir landsmenn, enda búinn að vera í sviðsljósinu frá því í eitís þegar hann söng Útihátíð og fleiri góð lög með Greifunum og síðan hefur hann verið á fullu í Popppunkti með Dr. Gunna og heilmargt fleira. Felix býr nú í Vesturbænum í Reykjavík en bjó á Húnabraut 2 á Blönduósi. „Ég fæddist í Reykjavík en flutti 2ja ára á Blönduós þegar faðir minn Bergur Felixson hóf störf sem skólastjóri grunnskólans og mamma, Ingibjörg S Guðmundsdóttir, varð hjúkrunarfræðingur við sjúkrahúsið. Ég bjó á Blönduósi til 8 ára aldurs,“ segir Felix.
Meira

„Það er alltaf allt í boði í tónlist, það er það besta við hana“ / EDDA BORG

Edda Borg Stefánsdóttir frá Sauðárkróki er nú búsett á Akureyri. Hún er uppalin á Króknum, fædd 1991. „Ég er dóttir Stebba Gauks, starfar sem töframaður í Loðskinn, kenndur við Gauksstaði á Skaga, og Ollu Dísar, dóttir Gígju og Árna heitinna á Hólmagrund.“ Röddin er aðal hljóðfæri Eddu en einnig spilar hún á píanó og gítar. „Mig langar að læra á kontrabassa og blásturshljóðfæri líka, það er alltaf hægt að bæta við sig!“ segir hún eldhress. Helsta afrekið í tónlistinni segir hún einfaldlega hafa verið drífa sig loksins til að semja og fara í söngnám. Ég tek grunnpróf í Tónlistarskóla Akureyrar núna í apríl. Annars var auðvitað mjög skemmtilegt að fá að vera Tarantúla með Arnari og Helga,“ segir Edda og vísar þar í lagið Tarantúlur með Úlfur Úlfur.
Meira

„Ella Fitzgerald hefur haft mikil áhrif á mig“ / HRAFNHILDUR VÍGLUNDS

Það er söngkonan Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir sem svarar Tón-lystinni að þessu sinni – og í raun öðru sinni því umsjónarmanni Tón-lystar urðu á smá mistök. Hrafnhildur, sem við sáum fara á kostum í The Voice Ísland fyrir jól, ólst upp í Dæli í Víðidal (Sólardalnum) og segist alltaf titla sig sem Húnvetning. Auk þess að syngja glamrar hún aðeins á píanó. „Ég lærði á klarinett sem krakki en held ég gæti ekki náð hljóði úr slíku apparti núna til að bjarga lífi mínu,“ segir Hrafnhildur.
Meira

„Born and Raised með John Mayer skiptir mig miklu máli“ / REYNIR SNÆR

Reynir Snær Magnússon fæddist árið 1993, alinn upp á Sauðárkróki af Aðalheiði Reynisdóttur og Magnúsi Ingvarssyni. Hljóðfærið hans er gítar. Spurður um helstu tónlistarafrek svarar hann: „Ég er nú ekki viss hvað er vert að nefna nema kannski Músíktilraunir 2012. Var þar valinn Gítarleikari Músíktilrauna sem gaf mér mikið spark til að leggja þann metnað í gítarleik sem ég geri í dag.“ Reynir býr nú í Reykjavík en er i jazzgítarnámi i Tónlistarskóla Garðabæjar og stefnir á miðpróf i vor. „Ég er að spila i nokkrum böndum en helst mætti nefna Körrent, sem spilar frekar rokkslegið popp, og Prime Cake sem er "instrumental" fusion kvartet. Svo að sjálfsögðu er ég í alskagfirsku ballsveitinni Hljómsveit kvöldsins.“
Meira