Skagafjörður

Dans og nýsköpun í Grunnskólanum austan Vatna

Nemendur Grunnskólans austa Vatna hafa haft í nógu að snúast síðustu dagana en þessa viku hafa nemendur frá öllum starfsstöðvunum þremur verið samankomnir í skólanum á Hofsósi og unnið saman í nýsköpunarvinnu. Inn á milli hafa þeir svo rétt úr sér og skellt sér á dansnámskeið hjá Ingunni danskennara sem kennir þeim vínarkrus og vals og ræl í bland við nýrri spor. Leikskólabörnin á Tröllaborg fengu líka danskennslu og sýndu frábæra takta eins og hinir eldri á danssýningu í Höfðaborg í gær. Við sama tækifæri var foreldrum og öðrum áhugasömum boðið að sjá afrakstur nýsköpunarnámsins hjá krökkunum.
Meira

Sjötíu milljónir í styrki á árinu 2018

Miðvikudaginn 21. febrúar sl. voru veittir styrkir úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra við athöfn í félagsheimilinu Húnaveri, Húnavatnshreppi. Alls bárust 107 umsóknir þar sem óskað var eftir 200 milljónum króna í styrki. Sjötíu styrkir voru veittir til 54 aðila að upphæð tæpar 55,6 millj. kr. Við sama tækifæri voru einnig veittir styrkir úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Norðurlands vestra. Níu umsóknir bárust þar sem óskað var eftir 73 milljónum króna í styrki. Styrkir voru veittir til þriggja aðila, samtals að upphæð 14,6 millj. kr.
Meira

Yfirlýsing frá stjórn UMSS

Aðalstjórn Ungmennasambands Skagafjarðar ákvað á fundi sínum 21. febrúar 2018 að lýsa yfir vilja félagsins, sem eins elsta íþrótta- og ungmennasambands landsins, til að eiga samstarf við ÍSÍ, UMFÍ og ráðuneyti íþróttamála um að tryggja sem best ofbeldislausa íþróttaiðkun fyrir alla. Í ályktuninni segir að aðalstjórn UMSS fagni þeirri umræðu og viðbrögðum sem #MeToo umræðan hefur leitt af sér og dáist af hugrekki þeirra einstaklinga sem stigið hafa fram fyrir skjöldu til að opinbera svo alvarleg vandamál. Að sama skapi vottar stjórnin öllum þolendum ofbeldis samúð sína.
Meira

Skagfirðingar meðal þeirra bestu í Þrekmótaröðinni

Þrekmótaröðin 2018 fór fram um síðustu helgi í íþróttahúsinu í Digranesi í Kópavogi. Tveir keppendur úr Skagafirði náðu góðum árangri, þau Guðrún Helga Tryggvadóttir Þreksporti og Ægir Björn Gunnsteinsson Crossfit 550.
Meira

Pétur Rúnar með á móti Finnum í kvöld

Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, er í liði Íslands sem mætir Finnum í dag í fyrri leik íslenska karlalandsliðsins í undankeppni HM 2019 í körfubolta. Leikurinn hefst kl. 19:45 í Laugardalshöllinni og verður hann sýndur beint á RÚV2. Á vef KKÍ segir að von sé á góðri stemmningu á leiknum og miklum stuðningi við íslenska liðið sem er eins gott því 50 finnskir áhorfendur eru komnir til landsins til að styðja við bakið á sínu liði í Höllinni.
Meira

Vegagerðin varar við skemmdum í slitlagi

Vegagerðin vill vekja athygli vegfarenda á því að slitlag er víða illa farið eftir veturinn og þá umhleypinga sem verið hafa undanfarið. Þegar snjóa leysir koma þessar skemmdir í ljós og vinnur Vegagerðin að því að bæta þær eins fljótt og kostur er en vegna þess hve þær eru umfangsmiklar er ekki unnt að lagfæra allt samstundis. Vegfarendur eru því beðnir að aka með gát og vera viðbúnir hugsanlegum skemmdum í slitlagi, hvort heldur sem er í malbiki eða klæðningu.
Meira

Leikfélag Sauðárkróks undirbýr sæluvikuverkefnið

Leikfélag Sauðárkróks hefur boðað til fundar vegna sæluvikuleikrits í kvöld, fimmtudagskvöldið 22. febrúar klukkan 20:00 í húsnæði Puffins and fiends á Aðalgötu 26. Allir sem áhuga hafa á að taka þátt í uppsetningu leikrits eru boðnir velkomnir. Það er í mörg horn að líta við uppsetningu leikrita og eru því allar hendur þegnar til að smíða, mála, vinna við hljóð og ljós, finna og föndra leikmuni og búninga, sauma, hvísla, selja miða og margt fleira.
Meira

Opnað fyrir skimunarsögu íslenskra kvenna

Á vefgáttinni Mínar síður á island.is geta konur nú skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands.
Meira

Veður að ganga niður eftir mikinn storm

Það hefur verið í ýmsu að snúast hjá björgunarsveitunum í Húnavatnssýslunum í óveðrinu sem gengið hefur yfir landið í dag. Á Hvammstanga losnaði klæðning af húsi og rúða gekk inn á einum stað en í báðum tilfellum var um minni háttar aðgerðir að ræða að því er Gunnar Örn Jakobsson, formaður Björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga sagði í samtali við Ruv.is í morgun. Einnig fóru menn frá sveitinni upp á Holtavörðuheiði í morgun til aðstoðar tveimur erlendum ferðamönnum sem lent höfðu í vandræðum þar.
Meira

Hviður yfir 30 m/s

Bálhvasst er víða á landinu þessa stundina og ekkert ferðaveður á Norðurlandi vestra frekar en annars staðar. Vindhraði slagar hátt í 30 metra á sekúndu á nokkrum stöðum og hviður hafa kitlað 40 metrana og jafnvel yfir. Á vef Vegagerðarinnar má sjá að vegurinn yfir Holtavörðuheiði er lokaður. Um klukkan 11:20 í morgun mældust 42 m/s á sjálfvirkri veðurathugunarstöð við Miðsitju í Blönduhlíð og 39,2 m/s við Blönduós svo það er ástæða til að fara varlega.
Meira