Hvert sæti var skipað á Hótelinu í Varmahlíð er á dögunum var haldin gleðisamkoma til að fagna útkomu ljóðabókarinnar „Fljót er nóttin dag að deyfa“ sem Bókaútgáfan Veröld gefur út og hefur að geyma úrval kveðskapar eftir hagyrðinginn og hestamanninn Sigurð Óskarson í Krossanesi.
Heitu vatni var hleypt á stofnlögn í Fljótum mánudaginn í síðustu viku, frá dælustöð í landi Langhúsa og að dælustöð við Molastaði, samtals um 8km leið. Greint er frá þessu á vef Skagafjarðarveitna.
Fulltrúar frá Sveitarfélaginu Skagafirði tóku á móti útnefningu Ferðamálastofu sem EDEN gæðaáfangastaður Íslands 2015 á Ferðamálaþingi sem haldið var á Akureyri sl. miðvikudag. Ferðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“.
Stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls vinnur enn að því að finna nýjan þjálfara fyrir liðið en þjálfarar liðsins, Pieti Poikola og Harri Mannonen, voru leystir undan samningi við liðið í gærmorgun. Stjórn og liðsmenn Tindastóls vilja koma því á framfæri við stuðningsmenn sína að liðið ætli að standa saman sem aldrei fyrr og muni ekki leggja árar í bát. Þau biðla til stuðningsmanna að gera hið saman og þjappa sér að baki liðinu.
Í síðustu netkönnun Feykis.is voru lesendur spurðir hvernig þeir reiknuðu með að Tindastólsmönnum mundi ganga í körfunni í vetur. Könnunin var að sjálfsögðu sett í loftið eftir tvo góða sigurleiki Tindastólsmanna og svörin kannski lituð af þeim úrslitum. Það er óhætt að segja að nokkur bjartsýni einkenni niðurstöðurnar.
Sérstök aukasýning á leik- og skemmtiverkinu „Sveitapiltsins draumur (eða bara martröð?)“ verður í kvöld, laugardaginn 31. október, í félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi. Leikfélag Hofsóss og Sönglög í Sæluviku frumsýndu verkið síðastliðna páska fyrir troðfullu húsi og voru undirtektir frábærar og komust færri að en vildu.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra vill vekja athygli á eftirfarandi tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands, dagsettri 26. október 2015: Vegabréf sem hafa verið framlengd teljast ekki gild ferðaskilríki frá 24. nóvember 2015.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð ályktaði um mikilvægi þess að komið verði á reglubundnu millilandaflugi um Norður- og Austurland á landsfundi VG sem haldinn var á Selfossi um sl. helgi. Í ályktun fundarins segir að beint millilandaflug sé ein grundvallarforsenda árangursríkrar uppbyggingar fjölbreytts atvinnulífs í landshlutanum.
Í 43. tölublaði Feykis sl. miðvikudag birtist grein eftir fimmmenninga sem lýsa þar yfir vonbrigðum sínum með að ekki skuli gert ráð fyrir tónlistarsal og tónlistarkennslu í nýju Menningarhúsi sem áformað er að byggt verði við Safnahús Skagfirðinga við Faxatorg. Síðan hafa fleiri komið fram á ritvöllinn af sama tilefni. Á því hef ég ákveðinn skilning og ber mikla virðingu fyrir framlagi greinarritara og alls tónlistarfólks til skagfirskrar menningar. Jafnvel þótt mér sé sjálfri frámunað að halda lagi eða leika á hljóðfæri hef ég ánægju af tónlist og fer oft á tónleika. Hins vegar olli mér vonbrigðum að þeir fimmmenningarnir skyldu nota tækifærið til að kveða upp hálfgerðan dauðadóm yfir starfsemi bókasafna.
Síðastliðin átta ár hefur dóttir mín stundað fiðlu og píanónám við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Í fiðlunáminu er gert ráð fyrir að foreldri komi með barni sínu í kennslustundir fyrsta árið, og ég hef því setið í ótal kennslustundum og nokkrum mismunandi kennslustofum í gegnum tíðina. Ég tel mig því þekkja nokkuð vel til starfseminnar.
Boðuð hefur verið bygging húss skagfirskrar lista- og safnastarfsemi á Sauðárkróki sem á að vera tilbúin á næstu árum. Það er spennandi verkefni og mun efla samfélagið á Sauðárkróki og víðar. Varðandi starfsemi hússins hefur verið tekið fram að það verði leik- og safnahús en ekki aðstaða til tónlistarflutnings og að Miðgarður í Varmahlíð hafi það hlutverk.
Herra Hundfúll fylgdist með keppni í Skólahreysti með öðru auganu nú á laugardaginn. Hann gladdist talsvert yfir gengi skólanna á Norðurlandi vestra. Varmhlíðingar voru sendir upp á svið til að taka við verðlaunum fyrir þriðja sætið en nemendur Grunnskóla Húnaþings vestra enduðu í fjórða sæti en með jafnmörg stig og Varmahlíðarskóli. En svo var farið að reikna ... aftur...
Minn tónlistarsmekkur er afar óreiðu- og jaðarkenndur en þessa dagana er ég að hlusta á margvíslega tónlist frá Suður-Ameríku, td. Mexícó og Kúbu. Ég var svo heppin að komast á tónleika í Mexícó nýlega með Lilu Downs sem er ein af mínum uppáhaldssöngkonum. Einnig sperrast eyrun upp ef ég heyri tónlist frá framandi menningarheimum eins og Tyrklandi eða Balkan skaganum, nefna má í þeim efnum Mercan Dede frá Tyrklandi, Balkan Beat box og búlgörsk þjóðlög sem ég er nýbúin að uppgötva. Svo er tangó og flamenco einnig í uppáhaldi, í tango fer fremstur Piazolla og flamenco snillingurinn Diego el Cigala frá Spáni blandar saman tango og flamenco.