feykir.is
Vestur-Húnavatnssýsla
30.06.2020
kl. 08.38
Helgina 4.-5. júlí verða Maríudagar haldnir að Hvoli í Vesturhópi. Fjölskyldan frá Hvoli hefur minnst Maríu Hjaltadóttir síðan sumarið 2009 með sýningu og menningarhelgi í byrjun júlí. Að þessu sinni verður sýningin helguð minningu Margrétar Jakobsdóttur Líndal frá Lækjamóti í Víðidal sem helgaði starf sitt því að viðhalda og þróa íslenskt handverk og tóvinnu. Eftir Margréti liggja fjölmörg listaverk og nytjamunir sem hún ýmist saumaði eða prjónaði úr ull. Að Lækjamóti kom María Hjaltadóttir í kaupavinnu ung að aldri og þekkti Margrét til Maríu sem síðar hóf búskap á Hvoli ásamt manni sínum Jósef Magnússyni. Baldur Líndal, bróðir Margrétar, var frístundamálari og munu myndir eftir hann prýða sýninguna á Hvoli. Helga Rún Jóhannsdóttir frá Bessastöðum í Hrútafirði og Hafdís Bjarnadóttir spunakona og tónskáld munu sýna handbrögð við tóvinnu en sýningin er opin frá kl. 13-18 báða dagana. Að venju verður messað á Breiðabólsstað sunnudaginn 5. júlí kl. 14 í tengslum við Maríudaga. Lagt verður af stað gangandi og ríðandi frá Hvoli kl. 13. Fjölskylda Maríu og sóknarnefnd býður upp á kaffi og með því á Hvoli báða dagana á meðan sýningunni stendur.
Meira