Mannlíf

Dagurinn sjálfur er hápunkturinn | Óli Þór Ólafsson svarar Dagur í lífi brottfluttra

Síðast staldraði Dagur í lífi við hjá Herdísi frá Hrauni þar sem hún kafaði í ylvolgum sjó við Eilat í Ísrael en nú er lesendum boðið að stíga um borð í ímyndaðan fararskjóta og taka stefnuna í vestur eftir endilöngu Miðjarðarhafi, spenna sætisólar og búa sig undir langa síestu á sprúðlandi heitum Iberíuskaga. Þar tekur á móti okkur Óli Þór Ólafsson sem stundar þar fjarnám við Háskóla Íslands á kjörsviðinu fræðslustarf og mannauðsþróun. Hann býr nú í 500 manna bæ, Chera, í Valencia héraði á Spáni.
Meira

Mörg og fjölbreytt verkefni á tjaldsvæðunum

Loksins stefnir í sæmilega suðræna viku hér norðan heiða með hitatölum vel norður af tíu gráðunum en að vísu með dassi af sunnanvindi á köflum. Það eru því væntanlega einhverjir farnir að plana ferðalög með hjólhýsi eða tjald og því ekki vitlaust að taka stöðuna á tjaldsvæðunum. Feykir hafði samband við Hildi Magnúsdóttur hjá Álfakletti en hún og eiginmaðurinn, Halldór Gunnlaugsson, sem búa á Ríp 3 í Hegranesi, hafa síðan árið 2011 rekið tjaldsvæðin í Varmahlíð, á Sauðárkróki, Hofsósi og á Hólum í Hjaltadal undir merkjum Tjöldum í Skagafirði.
Meira

Námsferð átta starfsmanna HSN til De Hogeweyk í Hollandi

Átta sjúkraliðar í svæðisdeild Norðurlands vestra fóru í námsferð til Hollands nú í sumarbyrjun og var aðal markmiðið að skoða þar Alzheimer-hverfið De Hogeweyk sem í raun er meira þorp en hverfi og staðsett rétt fyrir utan Amsterdam. „Það er erfitt að lýsa tilfinningunni sem maður fær þegar maður er inni í hverfinu en markmið De Hogeweyk þorpsins er að auka lífsgæði þeirra einstaklinga sem þar búa. Þetta er allt öðruvísi en við eigum að venjast hér á Íslandi,“ segir Sigurlaug Dóra Ingi-mundardóttir (Lulla).
Meira

Skagfirðingar hamingjusamastir og almennt sáttir með sitt | Rætt við Vífil Karlsson

Í frétt á vef SSV (ssv.is) segir að hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði hafi mælst mest á landinu í nýrri íbúakönnun landshlutanna. Íbúar Stranda og Reykhóla ásamt Vestur-Húnavatnssýslu voru óhamingjusamastir í könnuninni. Í könnuninni er afstaða þátttakenda til eigin hamingju og almennrar ánægju með þjónustu sveitarfélagsins þar sem þeir búa dregin saman. Þá mælir könnunin alls 40 búsetuskilyrði eftir 24 landshlutum en um 11 þúsund manns tók þátt í henni. Vífil Karlsson, sem starfar sem fagstjóri atvinnu- og byggðaþróunarsviðs hjá SSV í Borgarnesi, er í forsvari fyrir íbúakönnuninni og hann svaraði nokkrum spurningum Feykis varðandi könnunina. Hann er með BS í hagfræði frá Háskólanum í Bergen og doktor í hagfræði frá Háskóla Íslands.
Meira

Fullt hús og rúmlega það á Græna Salnum í Bifröst

 Það voru um 130 gestir og 30 flytjendur í níu atriðum sem skemmtu sér konunglega á tónleikunum Græni Salurinn sem fram fóru í Bifröst 22. júní sl. Fjörið hófst hálfníu að kvöldi og stóð fram yfir miðnætti og því hefur verið fleygt að þetta hafi verið albestu tónleikarnir hingað til.
Meira

Góður dagur hjá Ísponica á Hofsósi

Nú á laugardaginn var haldin opnunarveisla Ísponica í frystihúsinu gamla við Norðurbraut á Hofsósi. Veðrið lék við gesti og gangandi á Hofsósi og meira að segja forvitinn hvalur kíkti í heimsókn – eða þannig. Á staðnum var markaður þar sem hægt var að næla sér í bæði vörur og matarkyns. Boðið var upp á leiki fyrir krakka og tónlistaratriði.
Meira

„Það mæta margar stjörnur til leiks og allir bestu knaparnir“ | Þórarinn Eymundsson í viðtali

 Nú er hafið 25. Landsmót hestamanna en það fer fram á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík. Mótið, sem hófst nú mánudaginn 1. júlí og lýkur sunnudaginn 7. júlí, er haldið í sameiningu af tveim stærstu hestamannafélögum landsins, Hestamannafélaginu Fáki og Hestamannafélaginu Spretti. Setning Landsmótsins verður á fimmtudagskvöldið og í framhaldi af því fara leikar að æsast en reikna má með um 7.500 gestum á mótið. Af þessu tilefni þótti Feyki rétt að narra einn þekktasta hestamann þjóðarinnar, Þórarinn Eymundsson, heimsmeistara, tamningamann og reiðkennara á Hólum, í örlítið spjall en segja má að hann sé uppalinn á Landsmótssvæðinu á Vindheimamelum í Skagafirði.
Meira

Hjólið góða hefur verið formlega afhent

Nú í hádeginu afhenti Ásta Ólöf Jónsdóttir fötluðum í Skagafirði forláta hjól með hjólastólarampi við athöfn sem fram fór við húsakynni Iðju-hæfingar á Sauðárkróki og í kjölfarið var hjólið vígt. Það var þann 14. febrúar á þessu ári sem Ásta Ólö, áhugamaður um velferð fatlaðra, sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis að hún væri búin að hrinda af stað söfnun fyrir hjóli með hjólastólarampi. Hjólið sem varð fyrir valinu er þannig búið að hægt er að festa hjólastól framan á það og hjóla svo með viðkomandi um allar trissur.
Meira

Húnavakan nálgast óðfluga

Þær gerast ekki mikið glæsilegri bæjarhátíðirnar en Húnavakan á Blönduósi. Hún verður haldin dagana 17.-21. júlí og það er næsta víst að sólin verður í Húnabyggð – hvernig svo sem viðrar – sem og Stjórnin. Það er farið að kynda eftirvæntingarbálið á netinu og ekki annað að sjá en að dagskráin verði meiriháttar í ár.
Meira

Ferðamenn út um allar koppagrundir

Sumarið minnti á sig um liðna helgi en íbúum og gestum á Norðurlandi vestra var boðið upp á hlýindi og hæga sunnangolu. Umferð ferðalanga er nú komin á fullt á svæðinu en þegar blaðamaður átti leið um Skagann sl. sunnudag voru sjó bílar í Kálfshamarsvík og mest megnis erlendir túristar á vappi með myndavélar á lofti. Við Ketubjörg hafa verið gerð bílastæði og þau nýtti fólk sér í sumarblíðunni.
Meira