Skagafjörður

KS framlengir matvælaaðstoð sína

Kaupfélag Skagfirðinga hefur ákveðið að framlengja fram yfir páska matvælaaðstoð sína við þá sem eiga í erfiðleikum vegna atvinnumissis af völdum COVID-19 faraldursins eða fjárhagsvanda af öðrum ástæðum. 
Meira

Guðni Þór og Óskar Smári þjálfa Stólastúlkur

Gengið var frá samningum sl. sunnudag við nýtt þjálfarateymi kvennaliðs Tindastóls í knattspyrnu sem mun spila í efstu deild í fyrsta sinn í sumar. Teymið skipa þeir Guðni Þór Einarsson og Óskar Smári Haraldsson. Guðni, sem er Króksari, hefur þjálfað kvennalið Tindastóls síðustu þrjú ár í félagi við Jón Stefán Jónsson sem ekki gat haldið áfram þjálfun Stólastúlkna. Guðni fær nú gamlan Tindastólsfélaga til liðs við sig, Óskar Smára, sem líkt og fyrirliði Tindastólsliðsins er frá Brautarholti. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir þá félaga eftir undirskrift samninga í Húsi frítímans.
Meira

Tíu Stólastúlkur skrifa undir samninga við knattspyrnudeild Tindastóls

Síðastliðinn sunnudag skrifuðu tíu heimastúlkur undir samninga við knattspyrnudeild Tindastóls. Stúlkurnar skrifuðu undir í Húsi frítímans á Króknum á sama tíma og þjálfarateymið gekk frá sínum samningum. „Ég er gríðarlega sáttur við að búið sé að klára þessar undirskriftir við leikmenn og þjálfara og stefnum við á að klára samninga við restina af hópnum á allra næstu dögum,“ sagði Rúnar Rúnarsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, í samtali við Feyki.
Meira

Geðhjálp býður 30 skammta af G-vítamíni á þorranum

Við þurfum öll að rækta og vernda geðheilsu okkar. Rétt eins og með líkamlega heilsu, þar sem öllum er ráðlagt að taka vítamín daglega, gerir margt smátt eitt stórt í geðrækt,“ segir í tilkynningu frá Geðhjálp sem býður því 30 skammta af G-vítamíni á þorranum; ráðleggingar sem er ætlað að bæta geðheilsu. Á næstu dögum mun dagatal með G-vítamínsskömmtum verða sent inn á hvert heimili á Íslandi en einnig verður hægt að nálgast dagatalið í völdum sundlaugum og verslunum um allt land.
Meira

Forval VG í NV-kjördæmi

Kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi samþykkti einróma á fjölmennum fundi í gærkvöldi að halda forval til að velja á framboðslista fyrir komandi Alþingiskosningar 25. september næstkomandi. Steinunn Rósa Guðmundsdóttir á Sauðárkróki var endurkjörin formaður kjördæmisráðsins.
Meira

Kaupfélag Skagfirðinga eignast M-veitingar

Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna samruna Kaupfélags Skagfirðinga svf. og M-veitinga ehf. sem annast hefur rekstur Metro-hamborgarastaðanna á höfuðborgarsvæðinu. Í samrunaskrá kemur fram að þann 31. október 2020 hafi fyrirtækin undirritað samning um kaup KS á öllu hlutafé í M-veitingum. Kaupin séu hluti af uppgjöri skulda Álfasögu ehf., systurfélags M-veitinga, og Guma ehf. gagnvart KS og dótturfélögum þess.
Meira

Nú er hann lagstur í norðanátt

Vetrarveður er nú um landið norðan og austanvert og eru dregur færðin dám af því þó flestir vegir séu reyndar færir. Ófært er um Þverárfjall vegna óveðurs og einnig á Siglufjarðarvegi utan Ketiláss. Þar er óvissustig vegna snjóflóðahættu í gildi. Þungfært er milli Ketiláss og Hofsóss og snjóþekja með skafrenningi og éljagangi milli Hofsóss og Sauðárkróks. Vegurinn um Öxnadalsheiði er þungfær og þar er skafrenningur. Á öðrum vegum er hálka samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is.
Meira

Teitur Björn sækist eftir þingsæti

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, gefur kost á sér fyrir næstu þingkosningar þar sem hann mun sækjast eftir þingsæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu.
Meira

24 nemendur stóðust sveinspróf í húsasmíði

Dagana 8.-10. janúar voru haldin sveinspróf í húsasmíði í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og voru niðurstöður prófa kynntar sl. miðvikudag. Metfjöldi nemenda þreytti prófið eða 24 nemendur sem allir gerðu sér lítið fyrir og stóðust verklega prófið.
Meira

Stólarnir brenndu sig enn og aftur á Loga

Það var boðið upp á háspennu í Síkinu í gær þegar Njarðvíkingar heimsóttu Tindastólsmenn í 3. umferð Dominos-deildarinnar. Því miður þá héldu heimamenn áfram að vera ósannfærandi þrátt fyrir að hafa á að skipa flottum leikmönnum sem virðast enn ekki hafa áttað sig á að það þarf að spila varnarleik til að vinna leiki. Framlengt var í Síkinu og svo virtist sem Antanas Udras hefði tryggt Stólunum sigur þegar tæpar tvær sekúndur lifðu leiks. Njarðvíkingar eru hins vegar með Loga Gunnars í sínu liði og þá er leikurinn ekkert búinn fyrr en lokaflautið gellur. Hann setti þrist í andlitið á heimamönnum um leið og leiktíminn rann út. Lokatölur 107-108.
Meira