Fréttir

Jólatrjáasöfnun á síðasta degi jóla

Í dag er síðasti dagur jóla og sá 13. og má þá búast við að allir jólasveina verði komnir til síns heima á morgun. Hversdagsleikinn fer að taka á sig mynd á ný og liður í því er að taka niður allt jólaskrautið sem hefur einmitt brotið hann upp í svartasta skammdeginu. Körfuknattleiksdeild Tindastóls býður nú upp á ágæta þjónustu á Sauðárkróki, að sækja jólatré til þeirra er óska og koma þeim í endurvinnslu gegn vægu gjaldi eða kr. 1500.
Meira

Þremur gámastöðvum lokað í Skagafirði

Umhverfis- og samgöngunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur tekið þá ákvörðun að gámar, ætlaðir undir almennt sorp, verði fjarlægðir við Skarðsrétt, Áshildarholt og Varmalæk.
Meira

Fjölniskonur reyndust sterkari í Síkinu

Körfuboltinn er kominn á ról á ný og í gær mættust lið Tindastóls og Fjölnis úr Grafarvogi í hörkuleik í Síkinu. Lið gestanna var í toppsæti deildarinnar fyrir leik og hafa sennilega á að skipta besta liðinu í 1. deild. Heimastúlkur voru þó yfir í hálfleik, 48-39, en lið Fjölnis tók leikinn yfir í þriðja leikhluta og lagði þar grunninn að góðum sigri. Lið Tindastóls hefði þó með agaðri leik í lokafjórðungnum getað tekið stigin tvö en gestirnir voru sterkari á lokamínútunum og sigruðu 71-80.
Meira

Íslenska gæðingakeppnin - Kristinn Hugason skrifar

Fátt er íslenskara í hestamennskunni en gæðingakeppnin, nema ef vera kynni skeiðkappreiðar sem eru jú elsta séríslenska keppnisgreinin. Forvitnilegt er í þessu sambandi að átta sig á samþættri rót beggja greinanna og jafnvel mætti segja gæðingakeppnina afsprengi skeiðkeppninnar. Víkjum ögn nánar að þessu.
Meira

Blönduósbær óskar eftir upplýsingum um óveðurstjón

Blönduósbær hyggst, rétt eins og Húnavatnshreppur og Húnaþing vestra, safna saman upplýsingum um tjón í sveitarfélaginu af völdum óveðursins sem gekk yfir í nýliðnum desembermánuði. Óskað er eftir tilkynningum um tjón á búfé-, eignum-, og girðingum ásamt upplýsingum um rafmagns- og fjarskiptaleysi, ásamt öðru því sem íbúar telja að koma þurfi fram. Mikilvægt er að upplýsingarnar berist sem fyrst eða fyrir 13. janúar nk.
Meira

Bechamel kjúklingaréttur og glútenlaus súkkulaðiterta

Fyrstu matgæðingar ársins 2018 voru þau Róbert Mikael Gunnarsson og Natalia Grociak, búsett á Hvammstanga. Þau segjast elska mat og matargerð og sameina því vinnu og áhugamál á vinnustað sínum, veitingastaðnum Sjávarborg. Þegar þátturinn var gefinn út í byrjun janúar 2018 voru þau í fríi í Mílanó á Ítalíu og þegar Feykir heyrði frá þeim voru þau á leið á ekta ítalskt pastanámskeið. ”Við ætlum að gefa ykkur uppskrift að kjúklingarétti sem tengdamamma mín eldar oft fyrir okkur,” sagði Róbert, ”frábær réttur sem svíkur ekki.
Meira

Ráðherra kynnir Hálendisþjóðgarð á fundum um allt land

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fer á næstu dögum í hringferð um landið og kynnir áform um stofnun Hálendisþjóðgarðs, en frumvarp þar að lútandi er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Einn fundur verður á Norðurlandi vestra nk. þriðjudag 7. janúar í Húnavallaskóla.
Meira

Baldri leist mjög vel á Deremy

Það styttist í að Dominos-deildin fari af stað á nýjan leik en fyrstu leikirnir í síðari umferð deildarkeppninnar eru á sunnudag. Lið Tindastóls heldur suður yfir Holtavörðuheiðina á mánudaginn og lætur ekki staðar numið fyrr en komið verður í Sláturhúsið í Keflavík þar sem strákarnir mæta sterku liði heimamanna kl. 19:15.
Meira

Sigurður Hansen er Maður ársins 2019 á Norðurlandi vestra

Líkt og undanfarin ár stóð Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vetra. Gafst fólki kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum en nú bárust sex tilnefningar sem teknar voru til greina. Sigurður Hansen í Kringlumýri í Blönduhlíð hlaut flest atkvæði og ber því titilinn Maður ársins á Norðurlandi vestra.
Meira

Gult ástand fyrir Strandir og Norðurland vestra

Veðurstofa Íslands hefur gefið út veðurviðvaranir fyrir allt landið en hvasst er á Norður- og Austurlandi í dag, hríð og kalt í veðri. Suðaustan stormur með úrkomu verður á öllu landinu á morgun og hlýnar en hríðarviðvaranir eru í gildi á öllu landinu fyrir morgundaginn. Í athugasemd veðurfræðings segir að síðdegis á morgun hláni, svo gott sé að athuga með niðurföll þannig að vatn eigi greiða undankomuleið.
Meira