Fréttir

Ágæt veiði í Miðfjarðará

Nú hafa veiðst 3239 laxar i Miðfjarðará og er hún enn sem fyrr í öðru sæti á listanum yfir aflahæstu árnar. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 3677 laxar í ánni. Blanda, sem verið hefur í fimmta sæti á listanum, fellur nú niður í það sjötta með 1430 laxa en ekki veiddust nema 13 laxar í ánni í síðustu viku. Er þar fyrst og fremst að kenna yfirfallinu í Blöndulóni. Miklu munar á veiðinni í Blöndu nú og á síðasta ári þegar hún hafði skilað 2330 löxum á sama árstíma.
Meira

Leikfélag Akureyrar æfir Kvenfólk

Leikfélag Akureyrar æfir nú í Samkomuhúsinu sýninguna Kvenfólk eftir Hund í óskilum. Í sýningunni fara þeir félagar í Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen á hundavaði yfir kvennasöguna undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Sýningin verður frumsýnd þann 29. september og sýnd í október og nóvember í Samkomuhúsinu.
Meira

List fyrir alla í grunnskólunum

Grunnskólanemendur á Norðurlandi vestra fengu góða heimsókn í gær og fyrradag þegar hljómsveitin Milkywhale hélt tónleika á sex stöðum á svæðinu. Tónleikarnir eru á vegum barnamenningarverkefnisins List fyrir alla sem er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og er því ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum, óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum og stefnt að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Hægt er að kynna sér verkefnið betur á heimasíðunni List fyrir alla.
Meira

Góð aðsókn í sundlaugina á Hvammstanga í sumar

Sundlaugin á Hvammstanga hefur verið vel sótt í sumar, jafnt af ferðamönnum og heimamönnum. 12.500 gestir sóttu afþreyingu af einhverju tagi hjá íþróttamiðstöðinni yfir sumarmánuðina að því er segir á vef Húnaþings vestra. Eru það fleiri gestir en á sama tíma í fyrra þegar talan var 11.510 fyrir sömu mánuði. Sundgestum hefur fjölgað mest og hafa starfsmenn íþróttamiðstöðvar fengið mikið hrós frá innlendum gestum fyrir hófsamt verð á sundmiða en á Hvammstanga kostar stakur miði í sund aðeins 550 krónur. Starfsmenn íþróttamiðstöðvarinnar hafa orðið þess varir að ferðamenn sem eru á staðnum í nokkra daga leyfi sér að koma aftur og aftur í sund vegna viðráðanlegs kostnaðar.
Meira

Hvetur til raunhæfra aðgerða

Á fundi landbúnaðarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem haldinn var í gær, miðvikudaginn 6. september, var fundarefnið staða sauðfjárbænda. Hvetur nefndin til að hagsmunaaðlilar taki á hinni grafalvarlegu stöðu sem uppi sé í sauðfjárrækt á Íslandi þegar allt að þriðjungslækkun á afurðaverði blasi við sauðfjárbændum.
Meira

Rabb-a-babb 150: Björn Ingi

Nafn: Björn Ingi Óskarsson. Árgangur: 82. Hvað er í deiglunni: Enski er byrjaður og það er okkar ár. Síðan bara að vinna úr hugmyndunum sem ég og Viktoría erum búin að fá í sænska fæðingarorlofinu okkar. Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Án þín með Sverri og Binna. Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Eru íþróttamenn ekki pínu ofmetið fyrirbæri. Yfirleitt einstaklingar sem þiggja laun sem eru í engum tengslum við raunveruleikann eða framlag þeirra til samfélagsins, hlaupandi eftir bolta í algjöru tilgangsleysi?. Djók, sá sem var bestur í síðasta Liverpool sigri er yfirleitt í mesta uppáhaldi þangað til næsti sigur kemur. Já og Guðbrandur Guðbrandsson.
Meira

Réttað í 200 ára gömlu morðmáli

Á laugardaginn kemur, þann 9. september, stendur Lögfræðingafélag Íslands fyrir vettvangsferð á slóðir síðustu aftökunnar á Íslandi. Á annað hundrað manns eru væntanlegir til Hvammstanga þar sem ný réttarhöld í málinu, sem átti sér stað fyrir tæpum 200 árum, verða settt á svið.
Meira

Rangt nafn á miðli

Þau leiðu mistök urðu í auglýsingu frá Sálarrannsóknarfélagi Skagafjarðar að nafn miðilsins sem þar var tilgreint er ekki rétt. Hið rétta er að Valgarður Einarsson miðill verður við störf á Sauðárkróki dagana 13.-17. september en ekki Þórhallur Guðmundsson eins og sagt var í auglýsingunni.
Meira

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands

Ferðafélag Íslands mun standa fyrir lýðheilsugöngum um allt land, alla miðvikudaga í september að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga, vítt og breitt um landið, og verður fyrsta gangan í dag, 6. september. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangurinn með verkefninu að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Meira

Húsnæðisstuðningur til 15-17 ára nemenda í Sveitarfélaginu Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd hyggst veita sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila ungmenna á aldrinum 15-17 ára sem þurfa að leigja húsnæði vegna náms fjarri lögheimili. Þar er átt við herbergi á heimavist eða námsgörðum eða aðra sambærilega aðstöðu á almennum markaði. Ef nemendur deila húsnæði með öðrum getur húsnæðisstuðningur þessi náð til þeirrar leigu enda sé leigusamningur þá gerður við hvern og einn. Gerð er krafa um að leigjandi og leigusali séu ekki nátengdir. Þetta kemur fram á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagastrandar.
Meira