A-Húnavatnssýsla

Færanleg rafstöð staðsett við heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga

Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands voru áhrif óveðursins í desember mest á Hvammstanga, en þar var rafmagnslaust í 40 klukkustundir. Fjarskipta- og símasamband gekk erfiðlega og mikil ófærð var á svæðinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Reykjavíkurkjördæmis norður, um varaafl heilbrigðisstofnana.
Meira

Skilyrði verði sett fyrir úthlutun byggðakvóta á Skagaströnd

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Skagastrandar var rætt um úthlutaðan byggðakvóta til sveitarfélagsins en hann nemur nú 179 þorskígildistonnum. Ákveðið var að óska eftir við háttvirtan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að sérstök skilyrði verði sett fyrir úthlutun byggðakvóta sem kom í hlut Skagastrandar.
Meira

SSNV leita að verkefnastjóra

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, auglýsa starf verkefnastjóra laust til umsóknar. Í auglýsingu á vef samtakanna segir að hér sé um að ræða nýtt og spennandi verkefni sem hafi það að markmiði að laða fjárfestingar í landshlutann í því skyni að fjölga þar störfum. Ráðið er í starfið til tveggja ára með möguleika á framlengingu.
Meira

Kynningarfundur um Hálendisþjóðgarð á Húnavöllum í kvöld

Í dag á að gera þriðju tilraunina til að halda í Húnavallaskóla kynningarfund umhverfis- og auðlindaráðherra á frumvarpi um Hálendisþjóðgarð, sem byggir á skýrslu þverpólitískrar nefndar. Tvisvar hefur þurft að fresta fundi vegna veðurs. „Veðurspáin lofar góðu svo okkur er ekkert að vanbúnaði,“ segir í tilkynningu úr ráðuneytinu.
Meira

Minjastofnun gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpsdrög umhverfisráðherra

Minjastofnun Íslands hefur sent inn umsagnir um drög að frumvörpum til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða annars vegar og Hálendisþjóðgarð hins vegar en ljóst þykir stjórnendum að útgjöld Minjastofnunar og vinnuálag muni aukast verulega með stofnun þjóðgarðs. Þykir því nauðsynlegt að efla Minjastofnun Íslands eigi að vera hægt að uppfylla markmið þjóðgarðsins um verndun menningarminja.
Meira

Sögufélagið Húnvetningur fundar í Hnitbjörgum

Sögufélagið Húnvetningur, í samstarfi við Félag eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu, heldur fund í sal FEB í Hnitbjörgum nk. miðvikudag, 29. janúar klukkan 14. Á fundinum verða haldnir þrír fyrirlestrar og boðið verður upp á kaffi og kleinur.
Meira

Byggðaráð Blönduósbæjar skipar í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir

Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar sl. föstudag, þann 24. janúar, var skipun nýrra stjórnarmanna í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu eina mál á dagskrá. Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs og oddviti L-lista, verður stjórnarmaður í staðinn fyrir Hjálmar Björn Guðmundsson og Anna Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjórnarfulltrúi og oddviti Ó-lista, verður stjórnarmaður í stað Magnúsar Vals Ómarssonar.
Meira

Lúkas og girðingar :: Áskorandinn Þorlákur Axel Jónsson, brottfluttur Húnvetningur

Það var fyrir um tvöþúsund árum á tímum Rómaveldis að grískur læknir að nafni Lúkas skrifaði um atburði á Betlehemsvöllum er voru upphaf mikillar sögu. Í sögu Lúkasar af barnsfæðingu í gripahúsi segir frá hirðum er gættu búsmala, líklega voru þetta fjárhirðar.
Meira

Nautasteik og góður ís á eftir

Matgæðingar vikunnar í fjórða tbl. ársins 2018 voru Húnvetningarnir Anna Birna Þorsteinsdóttir og Pétur Þröstur Baldursson sem höfðu þetta að segja: „Við hjónin búum í Þórukoti í Víðidal. Við eigum þrjú börn, Rakel Sunnu, Róbert Mána og Friðbert Dag. Einnig erum við svo heppin að geta haft tengdasoninn Jóhann Braga inn í þessari upptalningu. Hér er hefðbundinn blandaður búskapur með kúm, kvígum- og nautauppeldi, spari fé, hestum og hundinum Oliver. Allur barnaflotinn er fyrir sunnan við nám á veturna og gengur vel. Á meðan er veturinn notaður til að breyta súrheyshlöðu í uppeldishús fyrir nautgripi og lagfæra íbúðarhúsið.“
Meira

Garðfuglahelgi Fuglaverndar

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar stendur yfir dagana 24.-27. janúar. Hér er um að ræða fastan lið í starfsemi félagsins sem vanalega á sér stað síðustu helgina í janúar. Felst hann í því að þátttakendur fylgjast með garði sínum einhvern tiltekinn dag þessa helgi og skrá hjá sér fjölda fugla sem í garðinn koma.
Meira