Sólon ríður á vaðið í Sæluviku með myndlistasýningu á morgun - Leikfélagið rekur lestina - Myndband
feykir.is
Skagafjörður, Mannlíf
23.04.2021
kl. 09.44
Samkvæmt almanakinu hefst Sæluvika Skagfirðinga nk. sunnudag en ákveðið hefur verið að engin formleg setning skuli fara fram að þessu sinni og má kenna Covid-ástandinu um. Nokkrar uppákomur hafa nú þegar verið auglýstar en ljóst má vera að Sæluvikan verður ansi mikið öðruvísi en fólk á að venjast. Sigfús Ólafur Guðmundsson, verkefnastjóri atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, segir að setningin verði með óhefðbundnu sniði eins og búast megi við. „Það verður ekki formleg setning Sæluviku heldur verður athöfn á laugardegi í lok Sæluviku með samfélagsverðlaun og úrslit vísnakeppni og svo verður Héraðsskjalasafnið með sýningu tileinkaða Feyki í tilefni 40 ára starfsafmælis. Laugardagurinn verður sem sagt aðaldagurinn og við hvetjum fólk til að taka þátt, hvort sem er rafrænt eða í mannheimum.“
Meira