Fréttir

Blót Arnarins á Faxatorgi í dag

Landvættablót Ásatrúarfélagsins verða haldin í öllum landshlutum í dag auk sameiningarblóts við Lögberg á Þingvöllum. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði helgar blótið. Blót Arnarins verður haldið á Faxatorgi á Sauðárkróki klukka 18, þar sem Árni Sverrisson Hegranesgoði helgar blótið.
Meira

Friðarganga Árskóla fór fram í morgun

Hin árlega Friðarganga Árskóla fór fram í morgun en þá mynda nemendur skólans keðju á kirkjustígnum frá kirkju og upp á Nafir að ljósakrossinum. Ljósker er látið ganga milli nemendanna sem láta friðarkveðju fylgja með og þegar ljóskerið er komið að enda mannlegu keðjunnar er ljósið kveikt á krossinum við mikinn fögnuð viðstaddra. Formenn nemendafélags Árskóla hljóta þann heiður að kveikja á ljósakrossinum og í ár kom það í hlut Hildar Hebu Einarsdóttur og Arnars Freys Guðmundssonar.
Meira

Sálfræðisetrið ehf. hefur starfsemi á Hvammstanga og Blönduósi

Sálfræðisetrið ehf. hefur starfsemi á Hvammstanga og Blönduósi nú í desember. Sofia B. Krantz, sálfræðingur, mun bjóða upp á sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna. Hún verður með viðveru á Hvammstangabraut 5 á mánudögum og þriðjudögum kl. 9:00–17:00 og á skrifstofu Félags- og skólaþjónustu A-Hún., Flúðabakka 2 á miðvikudögum og fimmtudögum, einnig kl. 9:00-17:00.
Meira

Stofnanavætt óargadýr

Eitt sinn hlýddi ég á tal tveggja lífsreyndra manna sem nú eru báðir fallnir frá. Annar var bifvélavirki, en hinn lögfræðingur. Þetta voru rosknir menn, mestu sómakarlar og í vínhneigðara lagi. Þeir höfðu báðir gengið í AA-samtökin og töluðu mjög hlýlega um þann félagsskap, en um SÁÁ töluðu þeir ekki hlýlega og voru hjartanlega sammála um að SÁÁ væru búin að eyðileggja AA-samtökin. Svo einkennilegt sem það var, lagði ég ekki nógu vel við hlustir eða hjó eftir því í hverju sú eyðilegging ætti að vera fólgin og með hvaða hætti hún hefði átt sér stað, en ætla nú að gera vanburðuga tilraun til að ráða eitthvað í það, og bið lesendur um að virða viljann fyrir verkið.
Meira

Árshátíðir tveggja skóla í dag

Árshátíð yngra stigs Varmahlíðarskóla, sem frestað var vegna veðurs fyrir viku, verður haldin í dag kl. 16:30 í Menningarhúsinu Miðgarði. 1. og 2. bekkur ætla að sýna íþróttaálfasprell en nemendur 3.-6. bekkjar munu gefa áhorfendum innsýn í Ævintýralandið þar sem gömlu, góðu ævintýrin verða fléttuð saman á óvæntan hátt. Að lokinni sýningu verða kaffiveitingar í Miðgarði. Höfundur Ævintýralandsins er Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Meira

Stjórnarsáttmálinn - Samstarf um sterkara samfélag

Sáttmáli Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis verður undirritaður í Listasafni Íslands í dag. Í sáttmálanum eru sett fram metnaðarfull og framsýn markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa, eins og segir í sameiginlegri fréttatilkynningu frá flokkunum þremur. Um 100 aðgerðir og áherslumál er að finna í sáttmálanum í þágu þessara markmiða og annarra verkefna.
Meira

Gjöf til verðandi foreldra í Húnavatnssýslum

Soroptimistaklúbburinn Við Húnaflóa hefur ákveðið að gefa verðandi foreldrum í Húnavatnssýslum bókina Fyrstu 1000 dagarnir, barn verður til eftir Sæunni Kjartansdóttur sálfræðing.
Meira

Upplestur á aðventu á Heimilisiðnaðarsafninu

Á morgun, föstudaginn 1. des. kl. 16:00, mun Heimilisiðnaðarsafnið standa fyrir upplestri á bókum sem koma út fyrir þessi jól. Lesarar verða þau Sigmundur Ernir Rúnarsson og Kolbrún Zophaníasdóttir.
Meira

Það voru ekki jól nema að Mahalia Jackson væri á spilaranum / MARGRÉT EIR

Að þessu sinni er það Margrét Eir Hönnudóttir sem situr fyrir svörum í Jóla-Tón-lystinni en hún hefur sungið inn jólin fyrir margan Íslendinginn síðustu árin, enda var hún í áraraðir ein aðal söngdívan í Frostrósum. Hvaða lag varstu að hlusta á? Ég var að hlusta á Lindu Ronstadt vinkonu mína syngja When You Wish Upon A Star. Ég er að máta við það nýjan íslenskan texta sem ég ætla að flytja um jólin.
Meira

Viðskiptahraðall fyrir nýjar hugmyndir og fyrirtæki í ferðaþjónustu

Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring.
Meira