feykir.is
Skagafjörður, Íþróttir
18.05.2023
kl. 21.16
oli@feykir.is
Var einhver að vonast eftir spennu? Kannski dramatík? Það var allur pakkinn á Hlíðarenda í kvöld þegar Stólarnir sóttu fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins, lentu undir, voru undir lengi, komu til baka en voru fimm stigum undir þegar ein og hálf mínúta var eftir. Og svo bara rættust allar óskir Tindastólsmanna, allir voru bænheyrðir og í leikslok mátti heyra flugelda springa á Króknum – eða var það ekki annars? Það var Keyshawn Woods sem reyndist svo svellkaldur á vítalínunni í lokin að það var óraunverulegt. Hann kom Stólunum stigi yfir þegar rúmar fjórar sekúndur voru eftir, hafði fengið þrjú vitaskot og setti þau öll niður eins og að drekka vatn. Það síðasta með fallegasta skoppi körfuboltasögunnar. Lokatölur 81-82 og fagnaðarlátum gestaliðsins á Hlíðarenda ætlaði aldrei að linna. Til hamingju Tindastólsfólk nær og fjær!
Meira