Ísgel framleiðir gelmottur á Blönduósi - sjötti þáttur Fyrirmyndarfrumkvöðla

Published on Nov 20, 2015

Í sjötta þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla er rætt við Zophonías Ara Lárusson , einn eiganda Ísgels á Blönduósi. Fyrirtækið framleiðir gelmottur sem viðhalda kælingu ferskra matvæla á meðan á flutningi stendur, frystipoka, margnota kæli- og hitagelpoka og einnota kælipoka sem eru góðir fyrir íþróttafólk og í sjúkrakassann.

Sífellt fleiri fiskvinnslufyrirtæki eru að taka gelmotturnar í notkun við flutning á fiski með flugfrakt. Þær þykja að mörgu leyti hentugri en ís, minna þarf af mottunum og ekki er hætta á leka. Í þættinum segir Zophonías frá því hvernig fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg eftir efnahagshrunið með batnandi afkomu sjávarútvegarins og auknum fiskútflutningi. Þá fór fyrirtækið í markaðsherferð til Noregs og Færeyja og eru þeir bjartsýnir á að það muni skila sér með auknum umsvifum út fyrir landsteinanna. 

Fyrirmyndarfrumkvöðlar er samstarfsverkefni Feykis og Skottu kvikmyndafjelags. Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.