Emmsjé Gauti, Keli og Björn Valur feat. Sigurjón Digri - 13/13

Emmsjé Gauti hefur ferðast um landið síðustu daga ásamt plötusnúðnum Birni Val og trommaranum Kela. Hljómsveitartúrinn heitir 1313, en á þrettán dögum spila þeir á þrettán stöðum víðsvegar um landið. Með þeim í för er tökuteymi sem festir ferðalagið á filmu og hafa sjö þættir verið birtir en þeir verða þrettán talsins.

Blaðamaður Feykis settist niður með strákunum eftir velheppnaða tónleika á Blönduósi í gærkvöldi þar sem Jói P og Króli komu einnig fram.

Við sitjum hér á áttunda degi af þrettán daga túr, hverjum dettur þetta eiginlega í hug? ,,Ég fæ stundum hugmyndir og stundum segir fólk mér það að þær séu ekki framkvæmanlegar en í þessu tilfelli voru bara allir til í þetta. Við vissum frá upphafi að þetta yrði alveg ótrúlega erfitt en við erum allir sammála um að þetta er búið að vera ógeðslega gaman,“ segir Gauti.

,,Við vorum fyrirfram mest stressaðir yfir klippurunum, þeir eru að klippa lífið okkar niður í þætti meðan við erum að lifa lífinu. Efnið þarf svo að vera tilbúið daginn eftir en að sjá lífið sitt í góðri framleiðslu daginn eftir er sturlað skrýtið,“ segir Keli og hlær. Samhliða þáttagerðinni er svo verið að taka upp tónlistarmyndbönd.

Á morgun eru tónleikar á Sauðárkróki, hverju mega gestir eiga von á? ,, Það verður fimmtudagspartý, Úlfur Úlfur mætir á svæðið og ef fólk hefur mætt í sturlað Mælifellspartý þá veit það hvað það er að fara ganga inn í,“ segir Gauti.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 í kvöld. Hægt er að kaupa miða á tix.is.