Hádegisverður hjá fálka

Það getur ýmislegt óvænt borið fyrir sjónir fólks þegar það er á heilsubótargöngu. Ingvi Guðmunds og Kristrún Péturs kíktu inn til Feykis upp úr hádegi í dag eftir að gengið fram á fálka að gæða sér á, að því er virtist, öðrum fálka litlum 100 metrum frá skrifstofu Feykis, eða í nágrenni við dælustöð ÓB á Sauðárkróki. 

Þau fönguðu fuglana á símtæki, bæði myndir og myndbönd, og voru til í að deila með lesendum Feykis. 

Að mati Bjarna Jónssonar hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra er hér að öllum líkindum um ungan fálka að ræða. Bjarni segir erfitt að greina það á myndunum hvort bráðin sé annar ungur fálki, grámáfur eða mögulega silfurmáfsungi. Hann segir þetta sannarlega vera óvenjulega sjón innan bæjarmarkanna.