Kvennakórinn Sóldís á Ítalíu í júní 2022

Snemma árs 2020 segir í frétt í Feyki að Kvennakórinn Sóldís ætlaði að fagna tíu ára starfsafmæli sínu en fyrstu tónleikar kórsins voru haldnir í menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð á konudaginn, sem þá bar upp á 20. febrúar. Kórinn hóf starfsemi um haustið áður og segir í annarri frétt í Feyki að hann hafi slegið eftirminnilega í gegn á kvennafrídeginum er hann söng á samkomu sem haldinn var í tilefni dagsins í Miðgarði þann 24. október 2011.

 Á afmælisárinu var ætlunin að gera sér dagamun og var m.a. stefnt á átta daga ferð til Ítalíu þar sem átti að syngja a.m.k. á tveimur stöðum fyrir gesti og gangandi. En líkt og hjá flestum landsmönnum, eða réttara sagt jarðarbúum, brenglaði Covid faraldurinn allar ferðaáætlanir kórsins þangað til í júní 2022 er 62 manna hópur kórkvenna og viðhengja þeirra, sem ýmist voru makar eða aðrir nákomnir, lögðu loks af stað í reisuna sem hafði tekið minniháttar breytingum frá því sem upphaflega var stefnt á.