Olíuflutningabíll fór útaf í Skagafirði

Allt tiltækt lið Brunavarna Skagafjarðar, frá Sauðárkróki og Varmahlíð, er að störfum við Höskuldsstaði í Blönduhlíð þar sem olíubíll fór útaf um kl. 18:30 í kvöld, 13. júní, og liggur þar á hvolfi utan vegar. Að sögn Vernharðs Guðnasonar slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Skagafjarðar slapp ökumaður olíubílsins án teljandi meiðsla.

„Það er búið að þétta þann leka sem kom að bílnum þegar hann valt og nú er beðið eftir tækjabíl með dælubúnaði til þess að taka olíuna úr bílnum. Sá tækjabúnaður kemur frá Akureyri. Búið er að gera ráðstafanir til þess að geta tekið bílinn upp á veg þegar búið er að dæla úr honum, eins hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að hreinsa jarðveg ef þarf á staðnum,“ sagði Vernharð nú fyrir stundu í samtali við Feyki. Olíubíllinn var að flytja flotaolíu og segir Vernharð enn óljóst hve margir lítrar hafa lekið úr bílnum en það mun vera talsvert. Búið er að tilkynna slysið til Heilbrigðiseftirlitsins.

Ekki ligg­ur fyr­ir á þess­ari stundu hver um­hverf­is­spjöll­in verða af völd­um lek­ans þar sem tölu­vert magn olíu hef­ur lekið und­ir bíl­inn. Þegar búið er að rétta bíl­inn við er hægt að meta stöðuna betur og sjá hversu um­fangs­mikl­ar hreins­an­ir á svæðinu þurfa að koma til, t.d. hvort skipta þurfi út jarðveg­in­um.