Fylgst með vinnslu Iceprotein á þorskpróteinum – 4. þáttur Fyrirmyndarfrumkvöðla

Í fjórða þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla heimsækjum við fyrirtækið Iceprotein í Verinu á Sauðárkróki. Rætt er við Hólmfríði Sveinsdóttur framkvæmdastjóra og fylgst með vinnsluferlinu þegar þorskprótein eru unnin úr afskurði frá Fisk Seafood.

Hjá Iceprotein er stefnt að því að hylkja próteinduftið og markaðssetja sem fæðubótarefni. Er áformað að þrjár tegundir verði komnar á markað í byrjun næsta árs. Hjá fyrirtækinu starfa sex háskólamenntaðir starfsmenn og hefur fyrirtækinu svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg síðan það var stofnað árið 2005.

Í þættinum segir Hólmfríður frá vinnsluferlinu og helstu verkefnum fyrirtækisins, góðum tengslum þess við athafnalífið á hafnarsvæðinu og því hversu mikilvægt það er fyrir ungt, háskólamenntað fólk að geta snúið heim á námi loknu.